Enski boltinn

Eru leikmenn Everton bara að bíða eftir að Koeman verði rekinn?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er þungt yfir Gylfa Þór Sigurðsson og félögum í Everton þessa dagana.
Það er þungt yfir Gylfa Þór Sigurðsson og félögum í Everton þessa dagana. Vísir/Getty
Útlitið er ekki bjart hjá Ronald Koeman, knattspyrnustjóra Everton, eftir tap á heimavelli á móti Burnley í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Veðbankar og aðrir eru farnir að telja niður þar til Hollendingurinn verði rekinn og fréttirnar úr klefanum ýta aðeins undir slíkar vangaveltur.

Everton missti niður forystu í Evrópuleik á móti Apollon Limassol í vikunni á undan og staðan er slæm bæði í ensku úrvalsdeildinni og í Evrópudeildinni.

Það er mikið eftir af tímabilinu en eftir að hafa safnað að sér nýjum og rándýrum leikmönnum í sumar þá er þessi slæma byrjun heldur betur að kalla á gagnrýnisraddir úr öllum áttum.

Everton er nú aðeins tveimur stigum fyrir ofan fallsæti og The Sun skrifar um það að leikmenn Everton telji að hollenski knattspyrnustjórinn sé sjálfur bara að bíða eftir því að hann verði rekinn frá Goodison Park.

Reyndari leikmenn Everton hafa samkvæmt heimildum Sun tekið eftir því að Ronald Koeman er orðinn fáskiptinn í öllum samskiptum og að hann virki áhugalaus.

Koeman neitaði að tala um framtíð sína við blaðamenn eftir tapið á móti Burnley um helgina sem var það fjórða hjá liðinu í fyrstu sjö deildarleikjunum.

Þessi slæma röð úrslita hefur gerbreytt Koeman og samskiptum hans við leikmenn Everton og pressan gæti hreinlega verið að fara með hann.

Koeman hefur eytt meira en 220 milljónum punda á þeim fimmtán mánuðum sem hann hefur verið knattspyrnustjóri Everton þar á meðal 145 milljónum í sumar þar sem hann keypti meðal annars Gylfa Þór Sigurðsson frá Swansea fyrir metfé.

Farhad Moshiri, eigandi Everton, hefur reynt að róa fólk eftir að stuðningsmenn Everton fóru að heimta að Koeman verði rekinn. Everton er samt líklega farið að horfa í kringum sig með nýjan framtíðarknattspyrnustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×