Handbolti

Arnór með fullkominn níu marka leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson.
Arnór Þór Gunnarsson. Vísir/EPA
Landsliðsmaðurinn Arnór Þór Gunnarsson átti mjög flottan leik þegar lið hans Bergischer HC vann fjórtán marka heimasigur á HG Saarlouis, 33-19, í þýsku b-deildinni í handbolta.

Það er frídagur í Þýskalandi í dag og því fór leikurinn fram mjög snemma á deginum.

Það hentaði greinilega okkar manni mjög vel því hann klikkaði ekki á skoti í leiknum.

Arnór Þór varð langmarkahæstur á vellinum með 9 mörk í 9 skotum. Hann skoraði fimm af mörkum sínum af vítapunktinum.

Tvö af mörkum hans komu úr hraðaupphlaupi, tvö úr hægra horninu og eitt af línunni. Hann átti einnig eina stoðsendingu á liðsfélaga sinn.

Arnór skoraði fimm mörkum meira en næstu menn í hans liðið sem voru þeir Max Darj og Leos Petrovsky með fjögur mörk hvor.

Sigur Bergischer HC var mjög öruggur en þeir voru komnir átta mörkum yfir í hálfleik, 18-10, og skoruðu síðan tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins.

Bergischer HC hefur unnið alla sjö leiki tímabilsins til þessa og er eitt með fullt hús á toppi deildarinnar.

Arnór er kominn með 54 mörk í fyrstu sjö leikjunum og er einn af markahæstu mönnum þýsku b-deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×