Skoðun

Vaxtakostnaður vanrækslunnar

Þórir Garðarsson skrifar
Síðustu ríkisstjórnir hafa tekið drjúgan hluta tekna til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og lækka vaxtakostnað. Nánast engir peningar eru sagðir aflögu til viðhalds eða uppbyggingar innviða, allra síst þjóðveganna.

Samtök iðnaðarins kynntu fyrir skömmu útreikninga sem sýna að 110-130 milljarða króna þarf til viðhalds þjóðvega og sveitarfélagavega. Þeir peningar eru ekki í augsýn, sultarólin hefur verið hert svo mikið að vegakerfið er að molna niður undan álagi vegna viðhaldsleysis.

Það er auðvelt að reikna út vaxtakostnað af lánum. En hver reiknar út vaxtakostnað vanrækslunnar? Hvað mun sú skuld kosta þjóðarbúið þegar upp er staðið?

Ekki þarf nema drjúga rigningu á Suðausturlandi til að afhjúpa hversu illa er komið fyrir vegakerfinu. Lítið má út af bregða til að samgöngur fari á hliðina. Nógu slæmt er þetta fyrir almenna umferð, en áfallið er ekki síður mikið fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á stóru svæði frá Suðurlandi til Austurlands. Ekki aðeins tapast tekjur, heldur hefur afhendingaröryggi fyrirtækjanna boðið hnekki. Slíkt er slæmt afspurnar þegar verið er að byggja upp heilsáratvinnugrein.

Óbreytt ástand hamlar þróun atvinnulífs á landsbyggðinni. Eftir því sem vanrækslan stendur lengur hækkar skuldin.

Höfundur er stjórnarformaður Gray Line og varaformaður Samtaka ferðaþjónustunnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×