Innlent

Eldur logaði út um glugga og dyr á húsi í Hörgársveit

Jóhann K. Jóhannsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Þegar mest lét var slökkviliðið með þrjá bíla til að glíma við eldinn.
Þegar mest lét var slökkviliðið með þrjá bíla til að glíma við eldinn. Slökkvilið Akureyrar
Slökkviliðsmenn frá Akureyri unnu að því að ráða niðurlögum elds í íbúðarhúsi í Hörgársveit í Eyjafirði fram undir klukkan sex í morgun. Að sögn Ólafs Stefánssonar, slökkviliðsstjóra, logaði bæði út um glugga og hurðir þegar slökkvilið kom á vettvang. Húsið var mannlaust.

Eldurinn kviknaði um kl. 23 í gærkvöldi. Ólafur segir húsið gamalt og byggingarefnin í því þannig gerð að eldurinn hafi farið um allt hús. Slökkviliðsmenn þurftu að rífa ytri klæðningu af veggjum þess til að slökkva eldinn.

Þegar mest var börðust tíu menn á þremur slökkviliðsbílum við eldinn. Ferja þurfti vatn úr Hörgá með tankbíl.

Aðstæður til slökkvistarfs voru hins vegar góðar að sögn Ólafs og lauk aðgerðum á staðnum snemma í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×