Erlent

Hvítir tígrishvolpar rifu umsjónarmann sinn á hol

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint en á henni má sjá hvíta tígrishvolpa í Jinan-dýragarðinum í borginni Jinan í Kína.
Myndin tengist fréttinni ekki beint en á henni má sjá hvíta tígrishvolpa í Jinan-dýragarðinum í borginni Jinan í Kína. Vísir/AFP
Tveir hvítir tígrishvolpar í dýragarði í útjaðri Bangalore á Indlandi rifu umsjónarmann sinn í garðinum á hol. Maðurinn, hinn 40 ára gamli Anji, lést af sárum sínum.

Maðurinn var að smala tígrishvolpunum inn á afgirt svæði í Bannerghatta dýragarðinum í útjaðri borgarinnar Bangalore í suðurhluta Indlands. Hann hóf störf hjá dýragarðinum fyrr í þessum mánuði, sem aðeins telur nokkra daga, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins Guardian.

„Fórnarlambið var að aðstoða við að ýta kattardýrunum inn í girðingu fyrir nóttina þegar þau sneru sér við og stukku á hann, þar sem ekki hafði náðst að loka einu fjögurra hliða á svæðinu almennilega,“ var haft eftir forstöðumanni dýragarðsins, Santosh Kumar.

Þá tók langan tíma að komast að líki Anjis vegna þess að tígrishvolparnir sátu vörð um það. Anji var því ekki fluttur á sjúkrahús fyrr en nokkuð löngu eftir árásina.

Ættingar Anjis mótmæltu í dag fyrir utan dýragarðinn en þeir krefjast 500 þúsund rúpía í skaðabætur frá dýragarðinum, eða um 805 þúsund íslenskra króna.

Tæp 2000 dýr eru hýst í Bannerghatta-dýragarðinum, þar á meðal Bengal-tígrisdýr, ljón og hlébarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×