Erlent

Þrýst á May að birta skjal um afturköllun á útgöngu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Allt gekk á afturfótunum hjá Theresu May á landsþinginu.
Allt gekk á afturfótunum hjá Theresu May á landsþinginu. vísir/epa
Undanfarna daga hefur verið þrýst á Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, að gera opinbert lagalegt minnisblað varðandi mögulega afturköllun á útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (ESB). Ólga vegna útgöngunnar fer vaxandi í kjölfar frétta þess efnis að samningaviðræður við sambandið gangi illa.

Talið er að innihald minnisblaðsins sé á þann veg að ríkisstjórn Bretlands geti hætt við útgöngu fyrir mars 2019 ef þingmenn telja að það þjóni hagsmunum landsins best. Minnisblaðið var gert af mörgum af lögfróðustu mönnum landsins.

Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar í fyrra hafa samningaviðræður staðið yfir milli Breta og ESB. Lítið hefur þokast í þeim. Ríkisstjórn landsins hefur staðið hörð á því að Bretar verði að taka þeim samningi sem býðst, þó hann sé slæmur, eða þá sætta sig við engan samning.

Stór fyrirtæki í landinu eru uggandi yfir stöðunni og sömuleiðis stór hluti þingmanna. Hafa einhverjir notað orðið „kamikaze“ yfir nálgun stjórnarinnar en orðið var notað yfir sjálfsvígsflugmenn Japana í síðari heimsstyrjöldinni. Frammistaða forsætisráðherrans á landsþingi Íhaldsflokksins í liðinni viku var ekki til að bæta úr skák en þar gekk flest á afturfótunum.

Deilurnar virðast hafa áhrif á ríkisstjórnina því hávær orðrómur er uppi um að sæti ýmissa ráðherra séu í hættu vegna þessa. Meðal þeirra sem hafa verið nefndir í því samhengi er utanríkisráðherrann Boris Johnson sem sakaður var um að hafa grafið undan May í aðdraganda landsfundarins.

Staðan hafði neikvæð áhrif á gengi pundsins í liðinni viku en það féll um þrjú prósentustig. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×