Enski boltinn

Wenger reddaði miðum fyrir Ferguson

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samband Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hefur batnað með árunum.
Samband Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger hefur batnað með árunum. vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, háði oft harðar rimmur við Sir Alex Ferguson.

Í kvöld mætir Frakkinn Ferguson; ekki þeim gamla heldur syni hans, Darren Ferguson sem er stjóri Doncaster Rovers sem er mótherji Arsenal í 3. umferð deildabikarsins í kvöld.

Darren Ferguson mætir með sína menn á Emirates í kvöld.vísir/getty
„Ég veit þeir deildu en núna kemur þeim mjög vel saman. Virðingin er gagnkvæm. Wenger er reyndar að redda miðum fyrir pabba á leikinn,“ sagði Darren Ferguson í viðtali við The Guardian.

Ferguson yngri tók við Doncaster í október 2015. Liðið féll niður í D-deildina á fyrsta tímabili Fergusons við stjórnvölinn en hann kom því strax aftur upp í C-deildina.

Hinn 45 ára gamli Ferguson hefur einnig stýrt Peterborough United og Preston á stjóraferlinum. Hann segir að honum hafi verið ráðið frá því að feta sömu leið og faðir sinn.

„Mér var alltaf ráðlagt að fara ekki út í þjálfun út af því sem pabbi gerði. En ég lít ekki þannig á það. Ég verð aldrei jafn góður og hann. Enginn er jafn góður og hann,“ sagði Ferguson.

„Ég er minn eigin herra. Það koma góðir tímar og slæmir tímar. Þú gætir verið rekinn en er það nóg til að gera þig afhuga þjálfun? Nei. Þannig líður mér. Ég á yfir 500 leiki að baki og þeir hafa reynt á mig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×