Innlent

Vætusöm helgi framundan víða um landið

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Veðrið verður milt næstu daga en mjög vætusamt verður líklega um helgina.
Veðrið verður milt næstu daga en mjög vætusamt verður líklega um helgina. Vísir/Stefán
Veðurstofan segir að verðrið verði rysjótt en milt næstu daga og svo verði mjög vætusamt um helgina. Austlæg átt í dag, 5-13 m/s og rigning eða skúrir. Hægari vindur og víða léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Hiti 6 til 13 stig. Suðlægari á morgun og víða rigning, þó síst norðaustanlands. Austan og suðaustan hvassviðri eða stormur og talsverð rigning á laugardag, en mikil úrkoma suðaustantil á landinu. Lægir smám saman á sunnudag, en áfram má búast við vætu sunnan- og vestanlands.



Mikilli úrkomu er spáð á Suðausturlandi, á Austfjörðum og á Ströndum fram yfir hádegi í dag. Því má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum á þessum svæðum, segir Veðurstofan. Mjög mikið rennsli er nú þegar í öllum helsu ám á Suðaustur og Austurlandi og víað mikill vatnselgur. Þannig munaði minnstu að vegurinn fyrir Berufjörð lokaðist alveg síðdegis í gær, en hann hélst þó fær léttum bílum, en stórir bílar urðu að fara um Öxi. Þar hafði ræsi ekki undan vatnsflaumnum en fréttastofu er ekki kunnugt um að vatn hafi nokkurnstaðar rofið vegi í nótt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Austan og suðaustan hvassviðri eða stormur og talsverð rigning, en mikil úrkoma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 8 til 15 stig. 

Á sunnudag:

Allhvöss sunnanátt með rigningu og síðar skúrum, en léttskýjað norðaustanlands. Fer að lægja síðdegis. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast á norðausturlandi. 

Á mánudag:

Suðaustanátt og skúrir sunnantil á landinu, en víða léttskýjað norðan heiða. Hiti 7 til 13 stig. 

Á þriðjudag og miðvikudag:

Suðaustanátt með rigningu og mildu veðri, en að mestu þurrt á Norður- og Norðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×