Fótbolti

Ivan Rakitic: Það er ekki auðvelt að spila með Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
:Lionel Messi og Ivan Rakitic.
:Lionel Messi og Ivan Rakitic. Vísir/Getty
Króatinn Ivan Rakitic hefur talað um það hvernig sé að spila með argentínska knattspyrnusnillingnum Lionel Messi.

Margir eru forvitnir um hvernig liðfélagi Messi er en í sumar vildi brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar yfirgefa Barcelona til að komast út undan skugga Lionel Messi.

„Þú verður að gera aðra hluti fyrir hann. Hann er besti leikmaðurinn í heimi og kannski líka sá besti í sögunni. Þú verður að gera þér grein fyrir því að hann er öðruvísi,“ sagði Ivan Rakitic í samtali við BBC.

„Það er auðvelt að horfa á hann og halda að þú getir þetta líka. En ef þú ert hér við hliðina þá er þetta öðruvísi. Það er ekki auðvelt að spila með Messi,“ sagði Rakitic en er meiri pressa á þér að vera liðsfélagi Lionel Messi?

„Þú verður að skilja að hver og einn leikmaður hefur sitt hlutverk í liðinu. Það sagði enginn á sínum tíma við Leo að hann gæti gert það sem hann vill. Hann hefur komist upp á þetta stig skref fyrir skref. Nú er hann kominn þangað og við verður að gera sérstaka hluti fyrir hann,“ sagði Rakitic. Það er hægt að hlusta á viðtalið við hann hér.

Lionel Messi hefur byrjað þetta tímabil frábærlega en hann er með 11 mörk og 2 stoðsendingar í fyrstu sex leikjum Barcelona í spænsku deildinni og Meistaradeildinni. Barcelona hefur unnið alla þessa sex leiki.

Messi skoraði fernu og gaf eina stoðsendingu að auki í 6-1 sigri á Eibar um síðustu helgi.

Lionel Messi er þrítugur síðan í júní og það stefnir í rosalegt tímabil hjá honum ef marka má þessa byrjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×