Innlent

Stefndi sjálfri sér í lífshættu við myndatöku við Gullfoss

Anton Egilsson skrifar
Konan klifraði niður klettinn þar sem fólk safnast jafnan saman til að skoða fossinn.
Konan klifraði niður klettinn þar sem fólk safnast jafnan saman til að skoða fossinn. Mynd: Sunna Lind
Erlend ferðakona kom sér í stórhættulegar aðstæður við að reyna að ná ljósmynd við Gullfoss á fimmtudag. Ekki hefði þurft mikið til að konan myndi falla í fossinn. Nútíminn greindi fyrst frá þessu.

Sunna Lind var stödd við Gullfoss á sama tíma og konan og tók mynd af henni þar sem hún sést í óða önn við að smella myndum af fossinum en hún hafði þá klifrað niður klettinn þar sem fólk safnast jafnan saman til að skoða fossinn. Var hún undrandi yfir því að viðstaddir hafi lítið kippt sér upp við þetta athæfi konunnar.

„Það leit út eins og öllum væri bara alveg sama. En aftur á móti voru bara túristar þarna og engin gæsla og ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hversu hættulegt þetta er,” segir Sunna Lind í samtali við Vísi.

Hún segir það hafa gengið brösulega fyrir konuna að komast aftur upp klettinn en að það hafi tekist að lokum. Ekki hefði þurft mikið til að illa myndi fara fyrir konunni. 

„Það hefði náttúrulega ekki þurft meira til en að hún hefði misst jafnvægið og dottið niður í fossinn.“

Vonast hún til þess að atvikið muni leiða til vitundarvakningar.

„Ef gæslan er ekki aukin þarna mætti að minnsta kosti merkja vel að þetta sé lífshættulegt.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×