Innlent

Auknar líkur á skriðuföllum á Austurlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það gæti rignt ansi hressilega á íbúa Djúpavogs fram að hádegi.
Það gæti rignt ansi hressilega á íbúa Djúpavogs fram að hádegi. Vísir/Friðrik
Veðurstofan býst við mikilli rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum fram yfir hádegi. Gerir hún ráð fyrir vexti í ám og lækjum á því svæði ásamt auknum líkum á skriðuföllum. Þá mun einnig blása hressilega en gert er ráð fyrir suðaustan 13 til 20 m/s á suðausturhorninu.

Annars staðar á landinu verður vindhraði á bilinu 5 til 10 m/s og verður vart við dálitlar skúrir. Vindurinn mun snúast og verða að austlægri átt í kvöld, 8 til 13 m/s. Rignir í nótt og á morgun en hægari vindur vestantil og víða léttskýjað. Styttir upp seint annað kvöld. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast norðanlands en heldur svalara á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Austan 10-15 um landið austanvert en norðlæg átt, 5-10 vestanlands. Víða talsverð rigning, en mikil um landið suðaustanvert. Dregur úr úrkomu með deginum og úrkomulítið undir kvöld. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á föstudag:

Austan 10-15 og rigning. Hægari vindur og úrkomuminna norðanlands. Hiti 8 til 13 stig.

Á laugardag:

Breytileg og síðar vestlæg átt 5-13. Rigning eða skúrir í flestum landshlutum. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Breytleg átt og víða væta, en norðlægari síðdegis og rofar til sunnan heiða. Hiti 6 til 11 stig.

Á mánudag:

Norðlægátt, 5-13 og rigning, en bjartviðri sunnan- og suðvestanlands. Hiti frá 5 stigum í innsveitum fyrir norðan, upp í 12 stig á Suðausturlandi.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir hæga suðlæga átt og að mestu þurrt. Skýjað um landið austanvert en bjart með köflum vestantil. Heldur kólnandi í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×