Enski boltinn

Kemur framherjinn sem Gylfa og félaga vantar frá PSG eða Atletico Madrid?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn Atletico Madrid fagna hér marki Kevin Gameiro.
Liðsmenn Atletico Madrid fagna hér marki Kevin Gameiro. Vísir/Getty
Everton er líklegt til að kaupa nýjan framherja í janúarglugganum og samkvæmt frétt í Daily Mirror í dag þá gæti sá leikmaður verið Kevin Gameiro hjá Atletico Madrid. The Sun hefur aftur á móti heimildir fyrir því að knattspyrnustjórinn Ronald Koeman vilji fá Edinson Cavani frá Paris Saint Germain.

Edinson Cavani er sagði ósáttur með stöðu sína hjá Paris Saint Germain eftir að Brasilíumaðurinn Neymar kom til Parísar en þeir félagar rifustu um hvor þeirra ætti að taka vítaspyrnu um síðustu helgi.

Fleiri félög en Everton hafi samt örugglega mikinn áhuga á að krækja í þennan öfluga Úrúgvæa. Það eru því meiri líkur á því að Frakkinn sé á leiðinni á Goodison Park í janúar.

Kevin Gameiro er þrítugur franskur landsliðsframherji sem gæti verið að leita sér að nýju liði á næstunni þar sem að Atletico Madrid hefur fengið til sín Diego Costa frá Chelsea.

Diego Costa mun kosta Atletico Madrid mikinn pening (líklega um 67 milljónir punda) og spænska félagið þarf að fá pening inn í staðinn.

Það væri því kannski góður kostur í stöðunni að selja Kevin Gameiro nú þegar það er ekkert öruggt að hann fái að spila mikið með Atletico-liðinu eftir áramót.

Kevin Gameiro kom til Atletico Madrid frá Sevilla síðasta sumar og borgaði félagið 35 milljónir punda fyrir hann. Hann var með 12 mörk í 29 leikjum í spænsku deildinni á síðasta tímabili. Gameiro hefur skorað 3 mörk í 13 landsleikjum

Atletico Madrid gæti lánað Kevin Gameiro til að byrja með en talið er að framherjinn myndi kosta um tuttugu milljónir punda.

Everton keypti marga leikmenn í sumar og þar á meðal borgaði félagið metupphæð fyrir íslenska landsliðsmanninn Gylfa Þór Sigurðsson. Everton tókst aftur á móti ekki að kaupa framherja en hvorki Olivier Giroud eða Diego Costa vildu koma á Goodison Park.

Gylfi hefur enn ekki náð að gefa stoðsendingu á tímabilinu enda vantar Everton-liðinu öflugan leikmann upp á topp. Það sást á því að Everton-liðið skoraði ekki í mörgum leikjum í röð. Tvö mörk Senegalans Oumar Niasse á móti Bournemouth um síðustu helgi var þó jákvæð viðbót við bitlausan sóknarleik liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×