Enski boltinn

Gestirnir fá inniskó til að ganga í um húsið | Myndband sem sýnir heimili Mesut Özil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ætli Mesut Özil hafi kannski verið að segja Laurent Kocsielny frá húsinu sínu þegar þessi mynd var tekin.
Ætli Mesut Özil hafi kannski verið að segja Laurent Kocsielny frá húsinu sínu þegar þessi mynd var tekin. Vísir/Getty
Þýski landsliðsmaðurinn Mesut Özil bauð upp á sýnisferð um heimili sitt í London á dögunum en myndbandið var gert í samvinnu við tímaritið Hypebeast.

Mesut Özil fór með myndatökumanninn um húsið sitt og sýndi honum bæði flottustu herbergin, fötin sín og bíla. Með í för var síðan hundurinn hans Balboa.

Það vakti vissulega að Özil býður öllum gestum sínum upp á inniskó til að ganga í um húsið og hann sjálfur er mjög upptekinn af allskonar skófatnaði. Það þarf enginn að vera á sokkalestunum þegar hann kemur í heimsókn til Mesut Özil.

Skórnir hans fá heiðurssess í fataherberginu og þar eru strigaskórnir í aðalhlutverki eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.



Það er líka örugglega margir sem öfunda Mesut Özil af kvikmynda- og leikjatölvu herberginu hans þar sem væri ekki slæmt að horfa á góðar myndir, fótbolta eða spila Play Station.

Fyrir sögufróða er athyglisvert að Özil hefur mynd af Mehmet II Tyrkjasoldán á heiðursstað á heimilinu og sér sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því.

Özil er af tyrkneskum ættum en bæði hann og foreldrar hans fæddust í Þýskalandi. Mehmet II hertók árið 1453 hina fornu höfuðborg Rómaveldis, Konstanínópel, og heitir hún síðan Istanbúl. Soldáninn er því táknmynd sigurgöngu Tyrkja sem í eina tíð virtust þess albúnir að ná undir sig allri Evrópu. Það er því athyglisvert að Özil hafi hann svo mjög í heiðri.

Mesut Özil er búinn að koma sér mjög vel fyrir í London en hann er á sínu fimmta tímabili með félaginu eftir að hafa komið þangað frá Real Madrid árið 2013. Í 166 leikjum með félaginu hefur hann skorað 32 mörk og gefið 57 stoðsendingar en hann hefur þrisvar orðið enskur bikarmeistari með félaginu.

Özil hefur ekki gengið frá nýjum samningi við Arsenal en núverandi samningur rennur út næsta sumar. Það verður örugglega eftirsjá eftir húsinu flytji Özil á endanum frá London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×