Íslenski boltinn

Willum hættir með KR og stefnir á að komast aftur á Alþingi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Willum og félagar eru í 4. sæti Pepsi-deildar karla.
Willum og félagar eru í 4. sæti Pepsi-deildar karla. vísir/anton
Willum Þór Þórsson býður sig fram í 1. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir Framsóknarflokkinn. Willum hættir því sem þjálfari KR í Pepsi-deild karla eftir tímabilið.

„Við núverandi aðstæður í íslenskum stjórnmálum lít ég svo á að mikil þörf sé fyrir Framsóknarflokkinn. Grundvallarstefna flokksins er mikilvæg í því verkefni að koma hér á trausti og stöðugleika,“ segir Willum Þór í tilkynningu sem hann sendi frá sér í dag.

Willum tók við KR um mitt síðasta tímabil og undir hans stjórn náði liðið Evrópusæti. Í ár hefur ekki gengið jafn vel og eftir úrslit síðustu umferðar í Pepsi-deildinni er ljóst að KR á ekki möguleika á að ná Evrópusæti.

Þetta er í annað sinn sem Willum stýrir KR en hann gerði það einnig á árunum 2002-04. KR-ingar urðu þá tvisvar sinnum Íslandsmeistarar. Willum gerði Val einnig að Íslands- og bikarmeisturum á sínum tíma.

Willum sat á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2013-16. Hann komst ekki inn á þing í síðustu Alþingiskosningum en fær annað tækifæri til þess 28. október næstkomandi.

KR fær Stjörnuna í heimsókn í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á laugardaginn en það verður síðasti leikur liðsins undir stjórn Willums.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×