Skoðun

Grunnsáttmáli þjóðarinnar

Ragnar Aðalsteinsson skrifar
Í þingsetningarræðu sinni nýverið taldi Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, að minnast ætti aldarafmælis sambandslagasamningsins 1918 og stjórnarskrárinnar 1920 „með því að vinna af einurð að breytingum á grunnsáttmála þjóðarinnar, breytingum sem vitna um sameiginlega sýn sem flestra á umhverfi og auðlindir, samfélag og stjórnskipun, ábyrgð og vald“.

Vert er að vekja athygli á því að forsetinn nefnir stjórnarskrána grunnsáttmála þjóðarinnar, en ekki sáttmála þings og þjóðar eins og stundum er sagt. Í þessum orðum forsetans felst sú skoðun hans að það sé hlutverk þjóðarinnar að setja landinu stjórnarskrá. Það getur hún gert t.d. með milligöngu stjórnlagaþings, sem til þess og þess eingöngu er kjörið. Vissulega þarf að breyta stjórnarskránni til að unnt sé að fela stjórnlagaþingi að setja okkur nýja stjórnarskrá eða breyta gildandi stjórnarskrá. Jafnframt verður að ákveða að skylt sé að bera niðurstöður stjórnlagaþings undir þjóðaratkvæði og þá fyrst er þjóðin hefur staðfest hana taki hún gildi.

Hugsjónin um stjórnlagaþing eða þjóðfund sem setji landinu stjórnarskrá hefur lifað með þjóðinni frá miðri nítjándu öld, en sjaldan hefur þessi lífsandi verið jafn almennur og nú.

Forsætisráðherra brást við hugmynd forsetans um grunnsáttmála þjóðar með því að tefla fram hugmyndum um að stjórn­ar­skrá­in yrði end­ur­skoðuð í áföng­um á næstu þrem­ur kjör­tíma­bil­um og „allir flokkarnir vinni sameiginlega að því“. (RUV 200917) Enn og aftur er afstaðan sú að stjórnarskráin tilheyri eða sé eign stjórnmálaflokkanna og er þá átt við þingflokka á Alþingi. Kenningin um fullveldi fólksins og um að allt vald komi frá þjóðinni er óumdeild. Í henni felst að það er hlutverk þjóðarinnar að ákveða hvaða vald hún framselur stjórnvöldum og hvernig hún skiptir því milli þeirra. Einnig mælir hún fyrir um takmarkanir á því valdi en þær birtast einkum i ákvæðum stjórnarskrár um mannréttindi. Stjórnmálamenn geta ekki ákveðið sínar eigin leikreglur. Þeir eru fyrir fólkið en fólkið ekki fyrir þá.

Ákvæðið um að Alþingi fari með valdið til að auka við eða breyta stjórnarskránni setti konungur í stjórnarskrána 1874, sem Íslendingar hvorki samþykktu né staðfestu. Vandinn er sá hvernig við komum valdinu til að setja landinu stjórnarskrá í réttar hendur.

 

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×