Handbolti

Alfreð marði Aron í íslenska þjálfaraslagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alfreð Gíslason vann sigur á Aroni Kristjánssyni í kvöld.
Alfreð Gíslason vann sigur á Aroni Kristjánssyni í kvöld. vísir/getty
Kiel er komið á blað í Meistaradeild Evrópu í handbolta en liðið marði Danmerkurmeistara Álaborgar, 27-26, á heimavelli sínum í kvöld.

Lærisveinar Arons Kristjánssonar gáfu Kiel alvöru leik og fóru hreinlega illa að ráði sínu undir lokin. Kiel var meira og minna manni færri síðustu átta mínútur leiksins en strákarnir hans Alfreðs sýndu karakter og kláruðu dæmið.

Janus Daði Smárason minnkaði muninn í 27-26 á síðustu mínútu leiksins og svo stal Álaborg boltanum í lokasókn heimamanna. Leikmenn Kiel vörðust þó vel og endaði þetta með aukakasti þegar lokaflautið gall en skot Patrick Larsen aldrei líklegt til árangurs.

Janus Daði spilaði vel í leiknum og skoraði fjögur mörk í fimm skotum en Arnór Atlason komst ekki á blað. Patrick Larsen var markahæstur gestanna með sjö mörk úr átta skotum.

Kiel er með tvö stig eftir þrjár umferðir líkt og Álaborg sem vann glæsilegan sigur á Celje frá Slóveníu í annarri umferðinni.

Rhein-Neckar Löwen varð af stigi í Frakklandi þegar liðið gerði 26-26 jafntefli við Nantes. Hvorki Alexander Petersson né Guðjón Valur Sigurðsson komust á blað fyrir Ljónin sem eru með fjögur stig eftir þrjá leiki í A-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×