Lífið

Gaman að vera rekin því þá opnast nýjar gáttir

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragga Eiríks leyfði sér að óttast í rúma viku eftir að henni var sagt upp störfum, svo fór hún á fullt í að leita að verkefnum.
Ragga Eiríks leyfði sér að óttast í rúma viku eftir að henni var sagt upp störfum, svo fór hún á fullt í að leita að verkefnum. Hildur Heimis
Líf Ragnheiðar Haralds- og Eiríksdóttur tók algjöra U-beygju í sumar og var það ekki í fyrsta skipti því svipað átti sér stað fyrir akkúrat tíu árum síðan. Ragnheiður, sem er betur þekkt sem Ragga, hefur samt aðdáunarvert hugarfar og lætur ekkert stoppa sig. Röggu var sagt óvænt upp í vor en hún hafði starfað hjá Vefpressunni og DV í nokkur ár.

„Ég bý ein með dóttur minni og leigi ein og það er enginn annar sem er að fara að koma með tekjur inn á þetta heimili. Það því læddist að mér svona 37 prósent afkomuótti í svona sjö og hálfan dag, en svo var það líka bara búið því ég var byrjuð að gera mér grein fyrir öllu sem ég gæti gert.“ Núna nokkrum mánuðum síðar er Ragga komin á fullt í mörg skemmtileg verkefni.

Fellur allt á réttan stað

„Ég byrjaði á því að fá aðstöðu í frumkvöðlasetri við Hlemm sem Nýsköpunarmiðstöð rekur, til þess að dusta rykið af nokkrum verkefnum sem ég var búin að vera með á pásu á meðan ég var í blaðamennsku, til dæmis spil og app sem ég er að þróa. Það var virkilega þægilegt að vera með vinnuaðstöðu þar. Svo ákvað ég að sækja um stöðu geðhjúkrunarfræðings hjá Tækniskólanum og fékk það starf.“

Þetta er hálft starf sem Ragga segir að sé fullkomið fyrir sig því þá geti hún sinnt öðrum verkefnum samhliða starfinu.

„Það er svo fyndið hvernig allt lendir skyndilega á réttum stað, svona eins og maður mundi henda púsli upp í loft og það kæmi niður og lenti sem fullkomin mynd. Ég hafði spáð í það í nokkurn tíma að bjóða upp á ráðgjöf á stofu og ákvað að byrja á því í haust þegar mér bauðst að slást í frábæran hóp á Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni. Þar er ég einn dag í viku og held auk þessnámskeið og fyrirlestra. Ég er alsæl með það.“

Gaman að vera rekin

Ragga hefur um árabil veitt fólki ráð um kynlíf skriflega en býður núna í fyrsta sinn upp á að hægt sé að leita til hennar á stofu.

„Ég hef veitt ráðgjöf í gegnum netið í mörg ár og oft verið spurt hvort það sé hægt að bóka tíma hjá mér. Það hefur bara aldrei verið rétti tíminn til þess fyrr en núna. Það er nefnilega svo gaman að vera rekin því þá opnast nýjar gáttir og gamlar hugmyndir ranka við sér úr einhverjum dvala og það lifnar allt við. Föst skikkanleg laun er það versta sem þú getur gert fyrir sköpunargáfu.“

Hún segir að það sé holt að þurfa að hafa aðeins fyrir hlutunum og endurhugsa hlutina reglulega.

„Auðvitað er líka til fólk sem er akkúrat á hinum endanum, þrífst á áralöngu öryggi og vinnur 43 ár á Mogganum eða eitthvað. Ég er alls ekki þannig heldur vil ég helst vera að vinna við eitthvað sem ég hef sjúklegan innblástur gagnvart.“

Þrátt fyrir nýju verkefnin er Ragga alls ekki hætt að skrifa. „Núna skrifa ég aðallega fyrir MAN sem kemur út einu sinni í mánuði. Ég er yfirleitt með svona tvær til þrjár greinar eða viðtöl og það heldur mér virkri í skrifunum, mér finnst það mjög mikilvægt líka.“

Kerfið orðið að tómri skel

Staða Röggu hjá Tækniskólanum er tilraunaverkefni sem skólinn fékk styrk fyrir og því er hún að móta starfið sjálf í samstarfi við námsráðgjafa skólans. Hún segir að það að hafa hjúkrunarfræðing með reynslu af geðheilbrigðismálum í framhaldsskólum sé jákvæð þróun.

„Með þessu höldum við sérstaklega vel utan um krakkana sem eru undir 18 ára og eiga í erfiðleikum og í mestri hættu á að flosna upp úr námi. Það er til svo mikils að vinna með því að halda þeim í skóla. Við vitum að ungt fólk stríðir við kvíða og þunglyndi og tölur um örorku hjá ungmennum valda miklum áhyggjum.“

Ragga segir að nemendurnir sem leiti til hennar þar sem vanti til dæmis ráð, einhvern fullorðinn til að tala við í trúnaði sem er ekki mamma eða pabbi eða vanti jafnvel bara smá slökun. Það sé þá kannski hægt að grípa inn í fyrr ef að vandamál eða merki um geðræn veikindi séu til staðar.

„Það er til mikils að vinna að ná að veita stuðning snemma í ferlinu. Það er mun auðveldara en að láta ástandið þróast í alvarlegt þunglyndi eða kvíðasjúkdóm.“

Sjálf er hún þeirrar skoðunar að það sé allt of lítil niðurgreiðsla á þjónustu sem snýst um andlega heilsu.

„Auðvitað á sálfræðiþjónusta að vera inni í kerfinu fyrir alla, mér finnst það jafn fáránlegt og að tannlækningar séu ekki inni í okkar kerfi. Því miður hafa hægri afturhaldsöflin eyðilagt heilbrigðiskerfið innan frá með fjársvelti, það er orðið að tómri skel. Sannaðu til, svo kemur einkafjármagnið til bjargar. Kerfið sér um sína og peningarnir halda áfram að renna í átt til þeirra sem hafa alltaf átt þá.“

Stressaðar að mæta á staðinn

Ragga heldur líka námskeið og fyrirlestra þar sem hún hefur ótrúlega gaman af því að fræða fólk og ræða um skemmtileg málefni. Á fyrirlestrarskránni eru alls konar spennandi fyrirlestrarr fyrir fyrirtæki og hópa af ýmsum stærðum og gerðum, og já þeir fjalla allir um kynlíf.

„Við erum frekar afslöppuð í viðhorfum gagnvart kynlífi. En þegar kemur að okkur persónulega þá er þetta svo ótrúlega lítið samfélag og flestir verða afskaplega feimnir. Þegar ég hélt fyrst námskeiðið Konur og kynlíf fyrir um það bil áratug voru konurnar sem tóku þátt stressaðar að mæta á staðinn, að einhver gæti séð þær fara inn í húsið. Það var samt ekkert neonskilti fyrir utan og þetta var haldið í jógasal. Núna deila konur því stoltar með fólkinu í kringum sig og á Facebook að þær séu að fara á námskeið og mæta á staðinn og bera höfuðið hátt. Við erum komin lengra og það þykir ekkert skrítið eða undarlegt á neinn hátt að kona taki sér tvisvar sinnum fjóra klukkutíma til þess að pæla í kynlífssambandinu við sjálfa sig og kynferðislegu sjálfstrausti. Þetta finnst mér geggjað.“

Fullt er á fyrsta námskeiðið hennar í október og nokkrar eru búnar að skrá sig á næsta námskeið sem fer fram í nóvember. Það er því greinilegt að margar konur vilja ná sér í meiri þekkingu.

„Það ríkir auðvitað trúnaður og það er enginn píndur til þess að tjá sig en það myndast ótrúlega falleg stemning í svona hópum. Allar eru mættar þarna í sama tilgangi og það myndast mjög falleg kvenlæg orka.“

Brjósklosið hafði jákvæð áhrif

Fyrir tíu árum síðan var Ragga að enda tíu ára feril í starfi hjá lyfjafyrirtækjum í sölu- og markaðsmálum. Hún segir að starfið hafi verið gott en það hafi ekki gefið sér jafn mikið.

„Launin voru brjálæðislega góð, bíll, ferðalög og alls konar fínerí en það drap niður í mér sköpunargleðina. Ég segi oft að mitt mesta happ á því tímabili hafi verið að fá brjósklos. Þá þurfti ég að taka mér frí frá vinnu í nokkrar vikur sköpunarkrafturinn vaknaði aftur.“

Þá fór Ragga að prjóna mikið og gaf í kjölfarið út bækur og kennsludiska ásamt því að gera mikið af fallegum uppskriftum sem aðrir prjóna eftir. Líkt og með uppsögnina þá leit Ragga á þessar neikvæðu aðstæður með jákvæðu hugarfari og gerði eitthvað frábært í stað þess að láta óvissuna buga sig. Hún er því alls ekki hrædd við að taka skyndilegar U-beygjur í lífinu.

„Ég er bara gerð þannig að ef það er ógeðslegur mótvindur þá fer ég bara í lausnagírinn og reyni að finna út úr hlutunum á meðan aðrir myndu kannski leggjast í fósturstellinguna og fara að grenja. Fólk er svo mismunandi en ég verð mjög skapandi þegar mér er ýtt út í horn. Neyðin kennir naktri konu að búa sér til ný störf, eða eitthvað þannig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×