Enski boltinn

Herbergisfélagi Dagnýjar fer til Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nadia Nadim fagnar marki með danska landsliðinu á EM síðasta sumar.
Nadia Nadim fagnar marki með danska landsliðinu á EM síðasta sumar. Vísir/Getty
Danska landsliðskonan Nadia Nadim er á leiðinni í ensku úrvalsdeildina en hún mun spila með liði Manchester City eftir áramót.

Nadia Nadim hefur undanfarið leikið við hlið íslensku Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá bandaríska liðinu Portland Thorns en sú danska var búin að gefa það út að hún myndi ekki framlengja samninginn sinn hjá bandaríska liðinu.



Nadia Nadim og Dagný Brynjarsdóttir hafa verið herbergisfélagar á ferðum sínum með Portland Thorns liðinu.

Nadia Nadim spilaði mjög vel með danska landsliðinu á EM í Hollandi síðasta sumar en þar komust dönsku stelpurnar alla leið í úrslitaleikinn þar sem þær urðu reyndar að sætta sig við tap á móti heimastúlkum í Hollandi.,

„Ég hef alltaf verið með það á óskalistanum að koma aftur til Evrópu og spila fyrir stóran klúbb. Það er heiður fyrir mig að fá tækifæri til að spila með Manchester City sem er eitt af stærstu félögum í Evrópu,“ sagði Nadia Nadim við BBC.





Nadia Nadim er fædd í Afganistan en flúði landið með móður sinni og fjórum systrum þegar hún var tólf ára. Þær byrjuðu í flóttamannabúðum í Danmörku þar sem hún spilaði fyrst fótbolta.

Nadim vann sig upp metorðastigann í danska fótboltanum og hefur nú skorað 22 mörk í 74 landsleikjum.

Hún hefur einnig verið í læknanámi meðfram fótboltanum en hefur ekki viljað fórnað náminu fyrir fótboltann. „Ég reyni að halda náminu áfram á milli tímabila og ég veit að þegar ég verð orðin læknir þá verð ég mjög ánægð með að hafa gert það. Ég elska samt að spila fótbolta,“ sagði Nadim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×