Innlent

Auka fjárframlög til leikskóla um 127 milljónir króna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lagt er til að auka fjárframlög til leikskóla Reykjavíkur um hundrað tuttugu og sjö milljónir króna til að bregðast við manneklu. Þetta kom fram á fundi sem meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar hélt í dag.

Enn vantar að manna 83 stöðugildi í leikskólum og 55 hjá frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum.

„Þetta er svipað og í fyrra á sama tíma varðandi frístundina og grunnskólann en okkur vantar heldur fleiri í leikskólaumhverfið. Við erum líka meðvituð um það að það eru allir að hlaupa hraðar, ef svo má segja. Líka þeir sem eru fullmannaðir og mikið álag víða og við viljum styrkja starfsmannahópinn og bæta stöðuna,“ segir Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar.

En verða launin eitthvað hækkuð?

„Svo er það verkefni kjaradeildarinnar og það eru einmitt nokkrar tillögur sem er vísað beint til þeirra, en launin hafa sem betur fer hækkað verulega, sérstaklega í leikskólaumhverfinu á undanförnum árum. Laun leikskólakennara hækkað um nærri 90 prósent á undanförnum sjö árum. Það hefur breyst mikið, en vitneskjan um það er kannski ekki mjög almenn úti í samfélaginu.“

Lagt er til að átta tillögur sem aðgerðarteymi í leikskólum lagði fram komi strax til framkvæmda.

„Það eru ýmsar tillögur sem lúta að því að bæta starfsandann, við viljum setja aukið fjármagn í heilsueflingu starfsfólks, í að bæta almennt abúnað þannig að starfsmenn geti lyft svolítið andanum. Svo eru líka hlutir eins og að eingreiðslur til stjórnenda, þeir leikskólar sem eru í manneklu fái fjármagn til að vinna kynningarefni til að laða að sér nýtt fólk, það hefur reynst vel vitum við í grunnskólaumhverfinu, sem dæmi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×