Innlent

Vísbendingar um fækkun á NA-horni landsins

Sveinn Arnarsson skrifar
Gistináttum ferðamanna fjölgar alls staðar á landinu, nema á NA-horni landsins.
Gistináttum ferðamanna fjölgar alls staðar á landinu, nema á NA-horni landsins. Vísir/Vilhelm
Gistináttum á Norðurlandi fækkaði um ellefu prósent í ágúst, samanborið við ágústmánuð í fyrra. Hins vegar fjölgar gistináttum ferðamanna í heild. Að auki fækkar gistináttum á Austurlandi um þrjú prósent.

Gistináttum á Suðurnesjum fjölgar um 33 prósent í ágúst samanborið við sama mánuð í fyrra og um tvö prósent á höfuðborgarsvæðinu. Raunar fjölgar gistináttum alls staðar utan NA-hornsins, þess staðar sem fjærstur er flugvellinum í Keflavík.



Njáll Trausti Friðbertsson
„Þessi fækkun er auðvitað mikið áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Mikilvægt er að byggja upp nýjar gáttir inn til landsins. Þá hljótum við að líta til alþjóðaflugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Það hefur verið unnið hörðum höndum af hálfu Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar að því að skapa skilyrði til að ýta við slíkum hugmyndum.“

Að mati Njáls Trausta þarf að greina þessar tölur og skoða hvort gestir séu mögulega að færast frá hótelum yfir í aðrar tegundir gistingar. Hann telur einnig aukinn skatt á greinina ekki vera heppilegan í núverandi árferði. „Ég hef haft miklar áhyggjur af þeim hugmyndum að hækka virðisaukaskatt á þeim hluta sem á að hækka í hærra þrep. Það ýtir enn frekar undir þá stöðu sem við erum að upplifa núna í ferðaþjónustunni. Sérstaklega í þeim landsvæðum sem eru fjærst höfuðborgarsvæðinu,“ segir Njáll Trausti.

Athygli skal vakin á því að í tölum Hagstofunnar eru eingöngu taldar gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×