Innlent

Sjarminn af úrslitaleik þrettán ára stúlkna vegna kærumáls

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Víkingsstelpur létu tveggja vikna bið eftir úrslitaleiknum ekki slá sig útaf laginu og fögnuðu 3-2 sigri í æsispennandi leik í Víkinni.
Víkingsstelpur létu tveggja vikna bið eftir úrslitaleiknum ekki slá sig útaf laginu og fögnuðu 3-2 sigri í æsispennandi leik í Víkinni. Óðinn Þórarinsson
Víkingur er Íslandsmeistari A-liða í 4. flokki kvenna eftir 3-2 sigur á Breiðabliki í úrslitaleik sem spilaður var á Víkingsvellinum á dögunum. Fresta þurfti leiknum um tæpar tvær vikur vegna deilna Breiðabliks og Stjörnunnar. 

Stjarnan sakaði Breiðablik um að hafa haft rangt við í úrslitakeppninni þar sem sami leikmaður spilaði leik með báðum A-liðum Breiðabliks, Breiðablik 1 og Breiðablik 2. Kærði knattspyrnudeild Stjörnunnar kollega sína hjá Breiðabliki til aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands.

Var það krafa Stjörnunnar að 4-3 sigurleikur Breiðabliks 1 gegn Stjörnunni yrði dæmdur tapaður fyrir Breiðablik 1 0-3. Úrslitin hefðu þýtt að Stjarnan hefði komist í úrslitaleikinn í 4. flokki á kostnað Breiðabliks 1.

Í fjórða flokki spila stelpur sem eru þrettán og fjórtán ára á árinu.

Eftir hefðbundna riðlakeppni sem spiluð var í allt sumar fóru þau lið sem best stóðu sig í undanúrslitariðla. Í öðrum riðlinum sigraði Víkingur en í hinum börðust Stjarnan og Einherji við tvö A-lið Breiðabliks, Breiðablik 1 og Breiðablik 2.

Stjarnan vann tvo fyrstu leiki sína og Breiðablik 1 sömuleiðis. Leikur liðanna þann 6. september var því leikur sem skæri um hvort liðið endaði í toppsæti undanúrslitariðilsins og færi í úrslitaleikinn gegn Víkingi.

Einn leikmaður Breiðabliks spilaði með Breiðabliki 2 í 0-2 tapi gegn Stjörnunni. Hún var svo líka í liði Breiðabliks 1 í 4-3 sigrinum gegn Stjörnunni, lykilleiknum um sæti í úrslitum.

Þetta voru Stjörnumenn ósáttir við og kærðu því úrslitin. Formaður barna- og unglingadeildar Stjörnunnar segir félagið hafa nýtt rétt sinn í málinu með því að leita til KSÍ. Framkvæmdastjóri Breiðabliks segir reglurnar skýrar og málið hafa tekið sjarmann af úrslitaleiknum.

Undanúrslitariðillinn þar sem tvö lið Breiðabliks og Stjarnan léku ásamt Einherja frá Vopnafirði.
Fengu staðfestingu frá KSÍ

Stjörnumenn vísuðu til reglugerðar KSÍ um knattspyrnumót þar sem segir að taki fleiri en eitt lið frá sama félagi þátt í móti megi enginn leikmaður leika nema með einu liði. Í yngri aldursflokkum megi þó víkja frá því ákvæði samkvæmt nánari reglum.

Þar segir, í grein 35.1.3 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, að þegar félag sé með tvö A-lið í móti þá gildi að leikmaður sem leikið hefur með liði 1 megi ekki leika með liði 2 fyrr en eftir næsta leik hjá liði 1 og 2 þar á eftir. Vildu Stjörnumenn meina að reglan hlyti að gilda í báðar áttir, enda um tvö A-lið að ræða þótt annað héti Breiðablik 1 og hitt Breiðablik 2.

Blikar kröfðust þess að kærunni yrði synjað. Byggðu þeir á því að fyrrnefnd grein ætti ekki við þar sem hún fjallaði aðeins um hvenær leikmenn úr liði 1 mættu spila með liði 2 í sömu keppni. Ekki væri hægt að túlka greinina í hina áttina. Þá væri almennt heimilt fyrir leikmenn að færast upp á milli liða án takmarkana.

Auk þess vísuðu Blikar til þess að þeir hefðu fengið staðfestingu hjá starfsfólki KSÍ fyrir leikinn um að leikmaðurinn mætti spila leikinn.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn þriggja dómara í áfrýjunardómstól KSÍ. Vísir/Anton Brink
Töpuðu málinu en áfrýjuðu

Aga- og úrskurðarnefnd féllst á málflutning Blika og sagði orðalagið skýrt. Reglugerðin takmarkaði aðeins heimild leikmanna úr liði 1 til þess að spila með liði 2. Engin takmörkun væri í hina áttina, að leikmaður færi úr liði 2 í lið 1. Var kröfum Stjörnunnar því hafnað og úrslitin látin standa.

Úrskurðurinn var kveðinn upp þann 12. september en Stjörnunni bent á að félagið hefði þrjá daga til að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ. Sem Stjarnan gerði.

Úrslitaleikurinn átti að fara fram 11. september en vegna kærunnar þurfti að fresta honum. Vegna áfrýjunar þurfti svo að fresta honum enn frekar þar sem áfrýjunardómstóll KSÍ kvað ekki upp dóm sinn fyrr en þriðjudaginn 19. september. 

Þar var aftur bent á að að engar takmarkanir væru á því að leikmenn úr liði 2 leiki í framhaldinu með liði 1. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. Í dómstólnum sitja lögmennirnir Sigurður G. Guðjónsson, Brynjar Níelsson og Jóhannes Albert Sævarsson. 

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks.Breiðablik
Bitnaði á leikmönnum sem voru í hringiðu

„Það tók sjarmann af úrslitaleiknum að þurfa að bíða þennan tíma,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks. Hann hafi fundið til með leikmönnum beggja liða, Breiðabliks og Víkings, sem þurftu að bíða tvær vikur á meðan KSÍ tók málið fyrir á tveimur stigum.

„Sérstaklega gagnvart þeim aðila sem átti í hlut. Ég get rétt ímyndað mér hvernig henni leið, að vera miðpunktur alls í þessu leiðindakærumáli.“

Eysteinn segir að vissulega sé iðkendafjöldi í Breiðablik mjög mikill. Af þeim sökum tefli Breiðablik fram tveimur og stundum þremur liðum í hverri keppni. Í þessu tilfelli hafi verið tvö A-lið, eitt sterkara A1 og svo A2.

„Svo meiðist leikmaður í A1. Það er ákveðin umbun að fá að hækka sig um lið og eðlilegt að velja leikmann í næsta liði fyrir neðan. Það á við í þessu eins og öðrum mótum. Þú getur fært leikmenn upp en ekki niður.“

Breiðablik hafi leitað staðfestingar á því hjá KSÍ að túlkun þeirra á reglunum, sem Eysteinn segir annars mjög skýrar, væri rétt. Hann segist vel skilja það að félög vilji leita réttar síns telji þau á sér brotið.

„En reglan er það skýr að þarna var  kannski full langt gengið að fara með þetta í áfrýjun. Það er mín persónulega skoðun,“ segir Eysteinn. Úrskurður nefndarinnar og dómur áfrýjunardómstólsins sanni það.

Knattspyrnudeild Breiðabliks hafi á tímapunkti velt fyrir sér að gefa hreinlega frá sér málið til að hægt væri að spila úrslitaleik, fyrst það átti að gera mál úr þessu.

„Þetta mál allt saman bitnaði aðallega á leikmönnunum í báðum liðum sem voru í hringiðu,“ segir Eysteinn.

Gunnar Leifsson, formaður barna- og unglingaráðs Stjörnunnar.
Fannst niðurstaða nefndarinnar ekki skýr

„Ástæðan fyrir því að við ákváðum að kæra var að við töldum ekki heimilt að einn leikmaður mætti spila með tveimur liðum í úrslitakeppni,“ segir Gunnar Leifsson, formaður barna- og unglingaráðs og stjórnarmaður í knattspyrnudeild Stjörnunnar.

Varðandi ákvörðunina að áfrýja úrskurðinum til áfrýjunardómstóls KSÍ segir Gunnar: 

„Það var okkar réttur og okkur fannst dómurinn ekki vera skýr.“

Deildin hafi leitað til lögfræðinga og beðið þá um að túlka lög KSÍ varðandi þetta atriði. Það hafi Blikar sömuleiðis gert. Hann segir málinu lokið af hálfu Stjörnunnar og hrósar Breiðabliki fyrir þeirra starf í yngri flokkum.

„Mér finnst Breiðablik hafa verið með frábært barna- og unglingastarf í mörg ár. Hins vegar er alltaf spurning hvers vegna lið sem er með allan þennan fjölda þurfi að nota sama leikmann í tveimur liðum.“

Aðspurður hver hafi tekið ákvörðunina um að kæra svarar Gunnar þá ákvörðun hafa verið tekna af stjórn. Yfirþjálfari og þjálfarar hafi verið sammála þeirri ákvörðun. Yfirþjálfari hafi ekki viljað áfrýja málinu en stjórnin hafi ákveðið það „að vel athuguðu máli“.

Uppfært klukkan 13:40

Áður stóð að 12 og 13 ára stelpur spiluðu í 4. flokki. Þær eru 13 og 14 ára. Beðist er velvirðingar á þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×