Fótbolti

Segir KSÍ eiga að borga laun Arons ef hann meiðist enn frekar í landsleikjunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Einar í leik með Cardiff í vetur.
Aron Einar í leik með Cardiff í vetur. vísir/getty
Neil Warnock, stjóri Cardiff City, er allt annað en sáttur við að Aron Einar Gunnarsson hafi verið valinn í íslenska landsliðið fyrir komandi leiki gegn Tyrkjum og Kosóvó.

Aron Einar er meiddur og alls ekki tilbúinn í landsleiki í næstu viku að því er Warnock segir. Hann vill að KSÍ beri ábyrgð á Aroni ef hann spilar og meiðist enn meira.

„Við viljum fá það skriflegt frá KSÍ að þeir beri ábyrgð á honum eftir að hafa séð röntgenmyndir af meiðslunum. Þeir verða að taka yfir launagreiðslurnar ef hann meiðist enn meira. Ég sé ekki af hverju við eigum að greiða launin ef KSÍ er að taka áhættu með hann,“ sagði Warnock sem augljóslega telur Aron ekki vera í stakk búinn til þess að spila landsleikina mikilvægu.

Aron Einar mun koma til móts við landsliðið og vera metinn af læknum hér á landi.

„Við erum ekkert sérstaklega hrifnir af því. Við skiljum að þetta séu mikilvægir leikir fyrir Ísland en ef þeir láta hann spila þá verðum við mjög pirraðir,“ sagi Warnock og bætti við.

„Þeir eru örugglega til í að láta hann spila á öðrum fætinum því ég veit að Aron er þannig að hann vill alltaf spila. Ég er búinn að segja honum samt hvað mér finnst um þetta allt saman. Hann er fyrirliði liðsins en ég hef sagt honum að ef hann meiðist illa og verður svo samningslaus þá sé það ekki gott fyrir hann. Röntgenmyndirnir ljúga ekki og læknirinn okkar er búinn að tala við lækninn þeirra. KSÍ verður að horfa á stóru myndina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×