Handbolti

Axel: Danir eru með frábært lið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik spilar sinn fyrsta heimaleik í undankeppni EM 2018 á sunnudag er Danir koma í heimsókn.

Ísland tapaði fyrsta leik sínum í undankeppninni í Tékklandi í vikunni. Tékkar unnu sannfærandi sigur, 30-23. Á sama tíma náðu Danir að vinna Slóveníu með sex marka mun.

„Það voru margir góðir kaflar í þessu hjá okkur í Tékklandi. Við gerum ákveðna feila sem verða til þess að þær skora auðveld mörk. Feilarnir voru ekki margir en þeir sem við gerðum voru dýrir. Tapið var leiðinlega stórt en góður leikur samt hjá stelpunum og ég var ánægður með vinnuframlagið hjá liðinu,“ segir Axel Stefánsson landsliðsþjálfari.

Danska liðið er feykisterkt og hafnaði í fjórða sæti á síðasta EM. Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga.

„Við ætlum að byggja á því sem við gerðum vel í Tékklandi en Danir eru með eitt af fjórum bestu liðum Evrópu. Frábært lið með allar sínar stjörnur þannig að við þurfum að mæta enn grimmari og fá fólk til þess að koma og hvetja okkur áfram,“ segir Axel en hann telur liðið vera á réttri leið.

„Við höfum farið í gegnum kynslóðaskipti undanfarin ár og erum enn í þeim fasa. Nú eru komnir enn yngri leikmenn og mér finnst þetta mjög spennandi staða hjá liðinu.“

Sjá má viðtalið við Axel í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×