Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Víkingur R 4-3 │Bikarinn á loft

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valsmenn eru Íslandsmeistarar í 21. skipti
Valsmenn eru Íslandsmeistarar í 21. skipti vísir/anton brink
Valsmenn unnu frábæran sigur á Víkingi R., 4-3, í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Valsvellinum. Fyrir leikinn voru Valsmenn orðnir Íslandsmeistarar og stóðu Víkingar heiðursvörð fyrir leikmenn liðsins er þeir gengu inn á grasið. Bjarni Ólafur Eiríksson skoraði sigurmark Vals í uppbótartíma.

Af hverju vann Valur? Liðið er einfaldlega besta lið á Íslandi og er réttilega Íslandsmeistari. Munurinn á milli Vals og Víkinga er töluverður gæðalega séð og sást það stundum í leiknum í dag. Víkingar áttu sína spretti en heilt yfir var þetta ekki knattspyrnuleikur á heimsmælikvarða. Liðin ekki að keppa að neinu og því fór sem fór. Niðurstaðan sjö mörk á Valsvelli.

Hverjir stóðu upp úr? Anton Ari Einarsson var góður í marki Vals eins og hann hefur alltaf verið í sumar. Víkingar fengu sín færi en Anton var oftast mættur á svæðið og varð mark Valsmanna vel. Varnarlínan í heild sinni átti frábæran leik og var Guðjón Pétur Lýðsson flottur á miðjunni, en hann skoraði eitt mark fyrir Valsmenn í dag. Sigurður Egill Lárusson var oft á tíðum öflugur í leiknum og Bjarni Ólafur Eiríksson einnig mjög góður.

Hvað gekk illa? Það var lítið undir í dag og voru bæði lið ekkert að spila sinn besta leik. Valsmenn vildu greinilega ekki tapa lokaleiknum og það sást á þeim í upphafi síðari hálfleiks, en bæði lið geta alveg spilað mun betur.

Hvað gerist næst? Það sem gerist næst er að liðin fara í frí og Valsmenn slá til veislu í gamla salnum að Hlíðarenda í kvöld.

Maður leiksins: Guðjón Pétur Lýðsson en allar einkunnir leikmanna má sjá ef ýtt er á Liðin.

Bjarni: Búinn að bíða eftir þessu frá Fjölnisleiknum„Tilfinningin er bara frábær að hafa náð að vinna þetta,“ segir Bjarni Ólafur Eiríksson, hetja Valsmanna, eftir leikinn í dag.

„Við förum með þennan sigur og titilinn inn í gott frí og þetta var bara frábært. Í rauninni hefði verið frekar glatað að ná bara í jafntefli í dag. Við áttum kannski ekkert mikið skilið út úr þessum leik en frábært að þetta hafðist.“

Bjarni segir að stemningin hafi verið frábær á Hlíðarenda í dag.

„Áhorfendur létu vel í sér heyra og gaman að spila hér. Ég er bara búinn að bíða eftir þessari stund frá því að við unnum Fjölni, að fá að lyfta bikarnum loksins aftur,“ segir Bjarni sem varð Íslandsmeistari með Val fyrir tíu árum.

Ólafur: Kýs frekar að senda dómurum miða í miðjum leik
Ólafur Jóhannesson tók við Val árið 2014vísir/anton brink
„Þetta var svolítið skrítin leikur og bar þess merki um að þetta væri sá síðasti í mótinu og hann skipti engu máli,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir sigurinn.

„Ég er auðvitað fúll yfir því að við fengum á okkur þrjú mörk en þetta er samt frábær endir hjá okkur. Við vildum svo sannarlega vinna þennan leik. Eftir að við urðum Íslandsmeistarar þá höfum við spilað tvo leiki og unnið þá báða. Við erum bara besta liðið á landinu.“

Einkennilegt atvik átti sér stað í miðjum síðari hálfleik þegar Kristinn Ingi kom inn á sem varamaður. Hann hljóp beint til dómara leiksins og rétti honum miða frá Óla Jóh.

„Ég kýs frekar að senda dómurum skilaboð heldur en leikmönnum mínum. Ég sendi honum bara skilaboð sem hann átti skilið,“ segir Óli léttur en vildi ekki fara nánar út í það sem stóð á miðanum.

Logi verðum áfram: Hansen hefði ekki verið í hóp ef ég hefði vitað þetta„Eins og gefur að skilja þá leið mér ekki vel með það að fá þetta sigurmark á okkur undir lok leiksins,“ segir Logi Ólafsson, þjálfari Víkinga, eftir tapið í dag.

„Við erum að fá á okkur allt of ódýr mörk í þessum leik og það einkennir í raun sumarið hjá okkur. Það eru í raun alltaf tíu menn fyrir aftan boltann en samt ná andstæðingar okkar alltaf að skora. Þetta er eitthvað sem við þurfum að leggjast vel yfir.“

Logi segir að hluti af vandanum sé að leikmenn eru bara ekki alveg nægilega einbeittir.

„Þegar ég tók við liðinu náðum við aðeins að snúa við genginu en því miður trúði liðið ekki sjálft að það ætti heima á þessum stað í deildinni.“

Logi segir að það muni oft ekki miklu á Víkingunum og andstæðingum þeirra í leikjum sumarsins. Logi  ræddi nokkuð lengi við Ólaf Jóhannesson á hliðarlínunni í leiknum í dag og var umræðuefnið Nikolaj Hansen, fyrrverandi leikmaður Vals. Hann gekk til liðs við Víkinga á miðju tímabili.

„Óli var ekki sáttur með það að ég væri að fara setja Hansen inn á og það var víst eitthvað heiðursmannasamkomulag um að hann myndi ekki spila gegn Val á tímabilinu. Ég varð bara að bera virðingu fyrir því, en hef ég hefði vitað þetta fyrir leik þá hefði hann aldrei verið í hóp.“

Logi ætlar sér að vera áfram með Víkingana.

„Ég hef áhuga á því að vera áfram og er með samning við félagið. Núna þurfum við bara að halda Bjarna Guðjónssyni áfram og semja við hann,“ segir Logi en Bjarni er aðstoðarþjálfari Víkinga.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira