Tottenham burstaði nýliðana á útivelli

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Harry Kane
Vísir/Getty
Tottenham er óstöðvandi um þessar mundir og á því varð engin breyting þegar þeir heimsóttu nýliða Huddersfield í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Tottenham lagði grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik því Harry Kane slapp úr gæslu varnarmanna Huddersfield strax á níundu mínútu og átti ekki í neinum vandræðum með að koma boltanum framhjá Jonas Lössl í marki heimamanna.

Vinstri bakvörðurinn Ben Davies tvöfaldaði forystuna átta mínútum síðar þegar hann batt endahnútinn á frábæra sókn Tottenham.

Á 24.mínútu var aftur komið að Harry Kane en hann skoraði þá laglegt mark með vinstri fæti. Lössl algjörlega varnarlaus í marki heimamanna. Þarna var ljóst að Huddersfield myndi ekki fá neitt út úr þessum leik.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri en sá fyrri en varamaðurinn Moussa Sissoko rak síðasta naglann í kistu nýliðanna þegar hann skoraði í uppbótartíma. Lokatölur 0-4 fyrir Tottenham sem eru nú búnir að vinna fjóra leiki í röð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira