Enski boltinn

Upphitun: Sjö leikir í enska, stórleikur á Stamford Bridge │ Myndband

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sjö leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar sjöunda umferðin rúllar af stað.

Huddersfield og Tottenham hefja leik í hádeginu í dag. Harry Kane hefur verið óstöðvandi í liði Tottenham að undanförnu, en nýliðar Huddersfield hafa byrjað vel í deildinni og eru í áttunda sæti eftir sex umferðir. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

West Ham fá Swansea í heimsókn á Lundúnaleikvanginn klukkan 14:00. West Ham situr í fallsæti með aðeins einn sigur. Swansea er aðeins einu stigi fyrir ofan þá í 15. sætinu og þurfa þvi bæði lið sigur í dag.

Southampton fer norður til Stoke á bet365 völlinn. Southampton-menn voru vonsviknir með tap gegn Manchester United um síðustu helgi og Stoke steinlá fyrir Chelsea.

Bournemouth og Leicester mætast í Bournemouth. Bæði lið hafa aðeins unnið einn leik á tímabilinu, en Leicester er stigi fyrir ofan Bournemouth á einum jafnteflisleik.

Botnlið Crystal Palace fer til Old Trafford og mætir Manchester United. Palace eru án stiga, en United hefur enn ekki tapað leik og er í öðru sæti, jafnt toppliði City á stigum. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

West Bromwich Albion fá Watford í heimsókn. Watford hafa unnið þrjá leiki og eru með 11 stig en West Brom eru með 8 stig og tvo sigra.

Deginum lýkur svo með stórleik umferðarinnar þegar topplið Manchester City sækir Englandsmeistara Chelsea heim á Stamford Bridge. Chelsea tapaði opnunarleik tímabilsins, en hefur síðan snúið blaðinu við og eru aðeins þremur stigum á eftir Manchester-liðunum.

Upphitunarmyndband fyrir daginn má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×