Íslenski boltinn

Haraldur pirraður: Fyrst boðaður í viðtal núna

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Haraldur var ekki sáttur í leikslok.
Haraldur var ekki sáttur í leikslok. vísir/ernir

Haraldur Björnsson, markmaður Stjörnunnar, var ekkert að skafa af hlutunum í leikslok er blaðamaður Vísis boðaði hann í viðtal.

„Ég ætla bara að byrja á að þakka þér fyrir að boða mig í viðtal. Það er gaman að komast í viðtal hjá bara einhverjum fjölmiðli í fyrsta sinn í sumar. Veit ekki hvað ég er búinn að spila marga leiki í sumar, fá á mig lítið að mörkum og fyrst núna er ég kallaður í viðtal,“ sagði Haraldur sem var ósáttur við að vera fyrst kallaður núna í viðtal og þá ekki vegna frammistöðu sinnar heldur vegna seinna mark Víkings þar sem hann vildi meina að brotið hefði verið á sér.

Arnþór Ingi átti þá fyrirgjöf sem Haraldur náði að handsama en þá rakst hann og leikmaður Víkings saman sem olli því að Haraldur missti boltann inn. Hann kvaðst vitaskuld vera mjög ósáttur.

„Já ég er töluvert ósáttur. Gunni [Gunnar Jarl Jónsson, dómari leiksins] segir við mig eftir leikinn að maðurinn snerti aldrei boltann heldur fer einungis upp í hendurnar á mér. Ef ég er að bakka og sé ekki hvað er fyrir aftan mig og svo skyndilega fer maður í hliðinna á mér og olnbogan minn og hvað á ég að gera?“

Oft er sagt að markmenn séu of verndaðir og því margir sem fagna því þegar dómari lætur leikinn halda áfram í stað þess að dæma aukaspyrnu í svipuðum atvikum en er Haraldur sammála af því?

„Já og nei. Við erum að spila íþrótt sem er allt öðruvísi en hinir. Það gilda aðrar reglur og við erum í öðruvísi búning ef þú varst ekki búinn að taka eftir því. Við erum líka með hanska. Auðvitað þarf að verja menn sem eru að spila allt aðra íþrótt en hinir.“

Hann bætti við að lokum að hann væri ekki kvartandi ef að um leikmann væri að ræða sem væri að berjast um boltann á sömu forsendum og hann.

„Ef að það væri einhver annar að fara upp í sama bolta með hanska eins og ég, gott og vel.“

En var flautumarki Stjörnunnar einhver sárabót?

„Auðvitað ekki. Þetta gerir ekki neitt fyrir okkur og mótið,“ sagði Haraldur augljóslega hundfúll.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira