Skoðun

Stopp nú

Eva Baldursdóttir skrifar
Á undanförnum dögum hafa margir risið upp gegn ákvörðun Útlendingastofnunar að vísa stúlkunni Haniye Maleki og afgönskum föður hennar úr landi. Samkvæmt fréttaflutningi var þeim tilkynnt í húsakynnum stofnunarinnar í morgun að þeim yrði vísað úr landi á fimmtudag.

Dómsmálaráðherra hafði upplýst það um helgina að hún myndi ekki snúa við ákvörðun Útlendingarstofnunar. Það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las frétt RÚV var í besta falli algjört taktleysi. Í versta falli valdníðsla. Nú á að drífa það af að vísa þessu fólki úr landi. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur tilkynnt að þau muni leggja fram frumvarp til að veita þeim ríkisborgararétt. Það frumvarp mun þurfa einhvern tíma til meðferðar hjá þinginu. Er verið að reyna vísa þeim úr landi áður en þingið getur tekið afstöðu?

Að sjálfsögðu á Útlendingastofnun að bíða í ljósi þeirrar óánægju sem ríkir í samfélaginu og í ljósi boðaðra aðgerða. Það er algjört lágmark að Útlendingastofnun bíði með sína ákvörðun þangað til þingið hefur tekið afstöðu til málsins. Löggjafinn á síðasta orðið. Þar situr fólkið sem við höfum kosið til að fara með opinbert vald í umboði okkar. Mínir þingmenn ætla að láta mannúð ráða för og vonandi meirihluti þingsins. Efnið þarf að ríkja yfir forminu. Réttlætið yfir bókstafnum. Mannúðin yfir þröngri stjórnsýsluframkvæmd.

Ég hvet Útlendingastofnun og ráðherra málaflokksins að bíða með þessa framkvæmd og virða lýðræðislega meðferð málsins. Ef lögfræðilegar röksemdafærslu skortir bendi ég á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. 



Höfundur er lögfræðingur og varaborgarfulltrúi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×