Erlent

Umfangsmiklar lögregluaðgerðir á Kastrup-flugvelli

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Búið er að girða af stóran hluta vallarins.
Búið er að girða af stóran hluta vallarins. Twitter/SVT
Uppfært klukkan 8:00: Búið er að opna flugstöðina á ný en lögreglan segist enn vera að rannsaka málið. Upprunlegu fréttina má sjá hér að neðan.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur lokað flugstöðvarbyggingu 2 á Kastrupflugvelli meðan hún rannsakar grunsamlegan farangur.

„Lögreglan er að störfum á flugvellinum og búið er að girða af flugstöð 2. Það gæti valdið umferðartöfum. Hve lengi er ekki vitað,“ skrifar lögreglann á Twitter-síðu sinni. Búið er að rýma flugstöðvarbygginguna og allir farþegar beðnir um að innrita sig í flugstöð 3.

Fjölmiðlafulltrúi flugstöðvarinnar segir í samtali við DR að „uppákoma“ hafi átti sér stað í vesturhluta flugstöðvarinnar og hvetur hann farþega og aðra að fara að fyrirmælum lögreglunnar. Ekki sé hægt að innrita sig í flugstöð 2 sem stendur, eins og kannski gefur að skilja.

Á Twitter-síðu flugstöðvarinnar segir að flugstöðinni sé lokað í ótilgreindan tíma meðan lögreglan rannsakar farangur í óhefðbundinni stærð. Ekstra bladet, sem er með blaðamann á staðnum, segir að fjarstýrðu vélmenni, sem oft er notað við sprengjuleit, hafi verið ekið inn í flugstöðina.

Sjónarvottur segir mikla örtröð hafa skapast eftir að flugstöðvar 2 og 3 voru sameinaðar. Farþegar hafi fengið fáar upplýsingar frá lögreglu, rétt eins og DR sem kallað hefur eftir viðbrögðum í morgun.

Fréttin verður uppfærð þegar nánari fregnir berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×