Skoðun
Ómar Þ. Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands.

Hernaðurinn gegn hafinu

Ómar Þ. Ragnarsson skrifar

Á vegferð umhverfis- og náttúruverndar á síðustu öld voru ritaðar tvær tímamóta blaðagreinar. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur skrifaði skorinorðaða grein um smánarlega meðferð á hverasvæðinu í Krýsuvík árið 1949. Sú meðferð var þó smámunir einir miðað við það óbætanlega rask sem stendur til að fara í á því svæði núna, 68 árum síðar.

Halldór Laxness skrifaði áhrifamilkla grein undir heitinu „Hernaðurinn gegn landinu“ árið 1970. Það voru orð í tíma töluð og í þau 47 ár sem liðin eru síðan þá hefur umhverfisverndar- og náttúrverndarfólk þurft að eyða öllu þreki sínu í að verjast þessum landhernaði. En vegna hins yfirþyrmandi fjölda baráttumála hefur baráttan því miður að mestu aðeins náð niður í fjöruborðið. Að vísu hafa Tómas Knútsson og samherjar barist hetjulega við ofurefli varðandi hreinsun á fjörunum og vegna lífshagsmuna þjóðarinnar hefur tekist að koma í veg eyðingu fiskistofna. En að öðru leyti hefur lengi staðið yfir það, sem kalla má hernað gegn hafinu, óreiða og eftirlitsleysi. Nýjasta birtingarmynd þess kemur ekki á óvart, að erlent skemmtiferðaskip hafi valdið mengun í íslenskri höfn, en síðan er upplýst í frétt frá Umhverfisstofnun, að íslensk fiskiskip og flutningaskip hafi leyfi til að brenna svartolíu á íslensku yfirráðasvæði á sama tíma og aðrar þjóðir banna slíkt.

Eftirlitsleysi
Óreiðan birtist á fleiri sviðum. Fyrir um fimm árum birtist viðtal í blaði, sem gefið er út í Straumsvík, við íslenskan skipstjóra á risaskipi sem siglir með súrál til Íslands, - skipstjóra með margra áratuga reynslu. Þar lýsti hann því hve mikill léttir væri fyrir hann og aðra skipstjóra að komast að Íslandsströndum, því að þá gætu þeir áhyggjulaust skolað aurugu og eitruðu kjölvatni og ððrum sora fyrir borð að vild vegna eftirlitsleysis Íslendinga. Við strendur annarra landa, jafnvel í svörtustu Afríku, mættu þeir hins vegar eiga von á því að vera handteknir, sviptir skipstjóraréttindum, sektaðir og jafnvel varpað í fangelsi fyrir slíkt athæfi. Ég reyndi á sinum tíma ítrekað að benda á þetta viðtal en ekkert gerðist. Það var svo sem viðbúið.

Myndir mínar af hrikalegri plastmengun á Ströndum fyrir 25 árum vöktu að vísu skammvinna athygli, en vandinn hefur margfaldast bæði hér og á heimsvísu síðan. Undan ströndum Vestur-Afríku hafa íslensk fiskiskip verið í svipuðu hlutverki og togarar Breta voru hér við land fyrr á árum. Umræður og deilur um loftslagsmál eru fyrirferðarmikil á okkar tímum. Merkilegt er hve sjaldan er minnst á óumdeilanlega og viðsjárverða súrnun sjávar, sem þó er einna mest í hafinu við Ísland. Súrnunin er dæmi um samspil sjávar og lofthjúps, því að hafið súrnar við það að taka í sig vaxandi koltvísýring úr lofthjúpnum. Það ætti því að vera sjálfgefið hvaða afstöðu við eigum að taka í loftslagsmálum, og komandi þurrð á jarðefnaeldsneyti og óhjákvæmileg orkuskipti er líka ærin ástæða fyrir róttækar aðgerðir sem Íslendingar eiga auðveldara með að grípa til en nær allar aðrar þjóðir.

Þótt brennsla svartolíu í skipum tengist hafinu eru það sótagnir sem stíga upp í loftið sem menga og eitra loftið. Í stað þess að vera gósenland umhverfissóða ættu Íslendingar sem eyþjóð og siglingaþjóð að vera í fararbroddi í baráttunni við hernaðinn gegn hafinu. Margt fleira mætti nefna varðandi sofandahátt okkar gagnvart náttúru hafsins, sem við eigum tilveru þjóðarinnar að þakka.

Höfundur er formaður Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira