Innlent

Þýfi og þjófnaður einkenndi nóttina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þjófar voru á ferli í nótt.
Þjófar voru á ferli í nótt. Vísir/Getty
Lögreglan hafði afskipti af fjölda þjófa og hvers kyns hnuplara í höfuðborginni í nótt. Kvöldið hófst á sjöunda tímanum þegar þrír karlmenn voru stöðvaðir í bifreið á Hringbraut. Talið er að góssið sem fannst í bílnum hafi verið þýfi og eru allir mennirnir grunaðir um hylmingu. Þá er einn þeirra grunaður um brot á vopnalögum en ekki er nánar greint frá því í skeyti hvaða vopn fannst á manninum. Að sama skapi er ekki tilgreint hverjar málalyktir voru.

Það var svo skömmu fyrir miðnætti sem farsíma var stolið af hótelgesti í Austurborginni. Símanum er sagt hafa verið hnuplað á hótelinu en þjófinum tókst ekki betur en svo að hann var myndaður í bak og fyrir við verknaðinn. Málið er nú til rannsóknar.

Í bifreið á Grensásvegi voru svo tveir menn handteknir á þriðja tímanum í nótt. Ökumaðurinn er talinn hafa ekið honum undir áhrifum fíkniefna og ekki bætti úr skák að mennirnir tveir eru grunaðir um þjófnað, vörslu fíkniefna „og fleira“ eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar. Mennirnir voru fluttir í fangageymslu þar sem þeir vörðu nóttinni.

Lögreglan þurfti að sama skapi að hafa afskipti af fjölda ökumanna sem grunaðir eru um að aka undir áhrifum hvers kyns vímuefna. Þá var einni bifreið kippt úr umferð þar sem hún var í reglulega lélegu ástandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×