Matraðarkvöld hjá Gylfa og félögum á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Masiello fagnar marki sínu.
Andrea Masiello fagnar marki sínu. Vísir/EPA

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans í enska úrvalsdeildarliðinu Everton voru rassskelltir í fyrri hálfleik í kvöld í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Íslendingaliðin Maccabi Tel Aviv frá Ísrael og AEK Aþena frá Grikklandi voru líka að spila. AEK vann sinn leik en Maccabi tapaði.

Atalanta vann leikinn 3-0 en liðið yfirspilaði Everton í fyrri hálfleiknum og var þá komið 3-0 yfir.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn með Everton og fékk meðal annars gult spjald á 63. mínútu.

Everton hefur þar með tapað þremur síðustu leikjum sínum en liðið tapaði fyrir Tottenham og Chelsea í leikjunum á undan sem báðir voru í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta var fyrsti tapleikur Everton-liðsins i Evrópu á þessu tímabili en liðið vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney voru báðir nálægt því að skora á 13. og 14. mínútu en þegar leið á hálfleikinn tóku Ítalarnir öll völd.

Andrea Masiello skoraði fyrsta mark Atalanta á 27. mínútu en hann hafði fengið algjört dauðafæri skömmu áður.

Alejandro Gómez og Bryan Cristante skoruðu síðan með þriggja mínútna millibili undir loka hálfleiksins og komu heimamönnum í 3-0.

Eftir þennan fyrri hálfleik var seinni hálfleikurinn aðeins formsatriði en Everton náði ekki að skora og hefur þar með ekki skorað í þremur síðustu leikjum sínum í öllum keppnum.

Viðar Örn Kjartansson og félagar í Maccabi Tel Aviv töpuðu 1-0 á útivelli á móti Slavia Prag en Viðar spilaði allan leikinn.

Arnór Ingvi Traustason og félagar í AEK Aþenu unnu 2-1 útisigur á Rijeka í króatíu en Arnór Ingvi sat allan tímann á bekknum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.