Innlent

Enn enginn verðmiði kominn á Geysissvæðið

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Dómkvaddir matsmenn hafa ekki lokið vinnu við að finna verðmiða á eignarhlut Landeigendafélagsins í Geysissvæðinu.
Dómkvaddir matsmenn hafa ekki lokið vinnu við að finna verðmiða á eignarhlut Landeigendafélagsins í Geysissvæðinu. Vísir/Vilhelm
„Menn voru þvingaðir til undirskriftar á samningi fyrir tæpu ári og síðan er þetta í einhverju skófari sem gengur hægt,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis ehf. en eigendur félagsins vita ekki enn hvað þeir fá fyrir hlut sinn í Geysissvæðinu.

Í október 2016 tilkynnti fjármálaráðuneytið að undirritaður hefði verið samningur við Landeigendafélag Geysis um kaup ríkisins á öllum eignarhluta félagsins innan girðingar á Geysissvæðinu eftir áralangar viðræður. Landeigendur voru ósáttir með framgöngu ríkisins í málinu og hefur verið tíðrætt um að þeir hafi verið þvingaðir til að skrifa undir samninginn þar sem landið hefði annars verið tekið eignarnámi.

Samkvæmt samningnum var kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna. Síðan hefur ekkert heyrst af kaupverði og staðfestir Garðar að matsmenn hafi ekki komist að niðurstöðu.

„Það er greinilegt að þetta tekur tíma en þeir hafa verið að vinna þessa vinnu. Kannski þessu ljúki eftir einn, tvo, þrjá mánuði eða sex. Hver veit,“ segir Garðar í samtali við Fréttablaðið. „Við bíðum eftir einhverri niðurstöðu sem mun á endanum birtast. Lögmaður félagsins taldi að það myndi fyrst gerast í október.“

Landeigendur hafa því augljóslega ekki fengið greitt fyrir hlut sinn.

„Nei og ekki afsalað einu eða neinu. Eigendur Landeigendafélagsins eru formlegir eigendur ennþá að þessum réttindum,“ segir Garðar.

Í tilkynningu vegnar undirskriftar samningsins kom fram að ríkið hefði formlega tekið við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Átti samningurinn að marka tímamót við að auðvelda heildstæða uppbyggingu á svæðinu. Svæðið innan girðingar á Geysi er um 19,9 hektarar að stærð. Ríkið átti um 2,3 hektara fyrir miðju svæðisins þar sem hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola eru. 17,6 hektarar voru í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×