Íslenski boltinn

Óli Jó: Með ólíkindum að Akureyri eigi ekki alvöru knattspyrnuvöll

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. Vísir/Eyþór
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, var nokkuð sáttur með að ná í eitt stig til Akureyrar en topplið Vals gerði 1-1 jafntefli við KA í 19. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld..

„Ég er mjög ánægður að fá þetta stig. Við ætluðum okkur náttúrulega að vinna leikinn og við reyndum það en ég virði það að halda stiginu sem við höfðum þegar við komum hingað og ég er ánægður með það.”

Hann segir sitt lið hafa átt erfitt með að spila boltanum og furðar sig á vallarmálum á Akureyri.

„Ég var þokkalega ánægður með frammistöðuna hjá mínu liði. Við áttum í basli með að spila boltanum og vorum í veseni. ”

„Völlurinn er skelfilegur og ég held að Akureyrarbær ætti að skoða sinn gang í þeim málum. Þessi völlur er ósléttari en vondur malarvegur og það er með ólíkindum að þetta stóra bæjarfélag skuli ekki eiga alvöru knattspyrnuvöll,” segir Ólafur.

Valsmenn geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn næstkomandi sunnudag þegar þeir fá Fjölnismenn í heimsókn á Hlíðarenda og segir Ólafur að undirbúningur fyrir þann leik sé þegar hafinn en ljóst er að mikil vinna er framundan við að ná mönnum heilum því meiðsli eru að hrjá nokkra lykilmenn Vals.

„Staða okkar er fín, við erum með einu stigi meira en fyrir leik og við erum sáttir við það. Nú þurfum við að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Við erum með frábært sjúkrateymi og ég held að við verðum allir hressir á sunnudaginn,” segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×