Innlent

Bein útsending: Blaðamannafundurinn í Valhöll klukkan 16:30

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson ávarpar þjóðina á  blaðamannafundi í Valhöll.
Bjarni Benediktsson ávarpar þjóðina á blaðamannafundi í Valhöll. vísir/ernir
Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað til blaðamannafundar í Valhöll klukkan 16:30. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Fastlega má gera ráð fyrir því að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, taki til máls á fundinum og greini frá stöðu mála í kjölfar þess að Björt framtíð ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.

Stöð 2 er send út í opinni dagskrá í dag. Verður útsendingin rofin þegar fundurinn hefst og er hægt að horfa á hana í spilaranum hér fyrir neðan.

Miklar vendingar hafa verið í stjórnmálunum seinasta sólarhringinn eða svo eða allt frá því að Vísir greindi frá því í gær rétt fyrir klukkan fjögur að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra, hefði skrifað undir umsögn fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, dæmdan kynferðisbrotamann þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, greindi svo frá því í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hún hefði frétt af því í lok júlí frá embættismönnum í dómsmálaráðuneytinu að faðir Bjarna væri á meðal umsagnaraðila Hjalta.

Hún ákvað að segja Bjarna frá þessu þegar hún frétti af því og sagði í gær að hún taldi það hafa verið rétt og að henni hafi verið það heimilt. Mánuði fyrr hafði dómsmálaráðuneytið neitað fjölmiðlum um aðgang að gögnum í máli sem sneri að uppreist æru Roberts Downey, annars dæmds kynferðisbrotamanns.

Björt framtíð sagði að ástæða ríkisstjórnarslitanna væri trúnaðarbrestur þar sem Sigríður hefði greint Bjarna frá aðkomu föður hans að máli Hjalta en enginn annar í stjórnarmeirihlutanum vitað af því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×