Innlent

Flokkur fólksins í betri stöðu nú en í fyrra

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Inga Sæland, stofnandi og formaður Flokks fólksins, segir flokkinn kláran í kosningabaráttu sem er nú þegar hafin.

Flokkur fólksins sem bauð sig fram til Alþingiskosninga í fyrsta sinn í fyrra mælist nú með 10.6% fylgi samkvæmt niðurstöðum um fylgi flokkanna á landsvísu sem Gallup gerði dagana 10. til 30. ágúst síðastliðinn. En hvað eru þessar tölur að segja okkur?


Þær kalla eftir breytingum, þær kalla eftir réttlæti í samfélaginu, þær kalla eftir að við öll fáum að njóta þeirrar velmegunar og hagsældar sem ríkir í landinu okkar í dag, ekki bara fáir útvaldir auðkýfingar og að við skulum hin sitja eftir og þiggja ölmusuna sem að fellur af þeirra borði.

En hvaða málefni eru í forgrunni í kosningabaráttu Flokks fólksins?

Við viljum útrýma fátækt og spillingu og við komum ekki til með að starfa með einum eða neinum sem er ekki tilbúinn í að taka þátt í því að afnema skattlagningu á fátækt sem okkur þykir þjóðarskömm, að taka utan um börnin okkar og koma í veg fyrir að nokkurt barn mælist í skýrslu UNICEF við fátæktarmörk, undir fátæktarmörkum eða í sárri fátækt. Við vinnum heldur heldur ekki með neinum sem vill ekki leiðrétta kjör eldriborgara, öryrkja og almennings í landinu sem er að berjast í bökkum.

Nú er líka talað um að þú viljir hafa stjórn á landamærunum, viltu loka þeim?

Bara alls ekki, en við vildum gjarnan fá að skoða vegabréf hjá fólki sem kemur til landsins. Okkur þykir svolítið sérstakt að hér sé hægt að koma til Íslands vegabréfslaus.

Nú eruð þið að fá fjármagn frá ríkinu sem er önnur staða en þið voruð með í fyrra er hún að hjálpa ykkur í þessum kosningum?

Já það er allur munur, við erum miklu sterkari og stöðugri og við erum búin að geta haldið úti skrifstofunni okkar, það að komast inn í fjárlög breytir öllu.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×