Umfjöllun: Ísland - Færeyjar 8-0 | Ferðalagið til Frakklands byrjar vel

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elín Metta fagnar.
Elín Metta fagnar. vísir/eyþór
Eftir markaþurrð sem íslenska kvennalandsliðið hefur ekki séð í fjölda ára þá má segja að leikurinn gegn Færeyjum í kvöld hafi verið einmitt það sem læknirinn skrifaði upp á. Stelpurnar hlóðu inn mörkunum og byrjuðu undankeppni Heimsmeistaramótsins 2019 af krafti.

Ísland fór með 8-0 sigur á Færeyjum af hólmi á Laugardalsvelli í kvöld með mörkum frá Elínu Mettu Jensen, Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur, Söru Björk Gunnarsdóttur, Fanndísi Friðriksdóttur og Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Andstæðingurinn var ekki sá sterkasti og er í raun erfitt að áætla hvort batamerki séu á liðinu síðan í Hollandi á þessum leik. En eitt er víst, að Elín Metta Jensen minnti rækilega á sig, með tvö mörk og stoðsendingu á fyrstu 25 mínútum leiksins.

Færeysku gestirnir komust aðeins þrisvar yfir miðju í fyrri hálfleik. Þær áttu eina sókn á fyrstu tíu mínútunum sem endaði með hættulausu skoti í hliðarnetið. Svo fengu þær aukaspyrnu við miðlínuna, sem dreif varla inn á teiginn og rúllaði svo í hendur Guðbjargar Gunnarsdóttur í markinu. Hennar fyrsta og eina snerting með höndunum í fyrri hálfleik. Rétt undir lok hálfleiksins komst Heidi Sevdal svo ein á móti Glódísi Perlu Viggósdóttur. Hún hins vegar var alein og vantaði alla áræðni, svo íslenska vörnin átti ekki í vandræðum með að leysa úr sókninni.

Þrátt fyrir öll mörkin og yfirburðina hjá íslensku stelpunum eru samt ákveðin viðvörunarteikn á lofti. Miðað við urmulinn af færum sem íslenska liðið fékk í dag þá hefði maður viljað sjá fleiri nýta tækifærið og setja mörk til að efla sjálfstraustið fyrir framan markið. Fyrra mark Fanndísar má í raun skrifa alfarið á mistök Anna Hansen í marki Færeyja, þó svo hún hafi þó gert vel í að hitta á rammann, og fóru fjölmörg góð færi Íslands fyrir bý.

Heilt yfir átti íslenska liðið þó fínan leik í kvöld og gerðu vel í að halda áfram að sækja á þær færeysku þó úrslit leiksins hafi í raun verið ráðin eftir hálftíma leik. Varnarmennirnir gerðu vel í að halda sér vakandi þrátt fyrir að hafa lítið að gera, og restin af liðinu var þolinmóð í að brjóta niður þéttan pakka Færeyinga.

Næst fer liðið til Þýskalands og mætir ógnarsterku liði Þjóðverja 20. október. Búast má við að sá leikur reyni meira á stelpurnar, og þá kemur betur í ljós úr hverju þær eru gerðar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira