Innlent

Segir Bjarta framtíð nota málin sér til framdráttar

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telur Bjarta framtíð hafa notað hitamál um uppreist æru sér til framdráttar til að bæta laka stöðu flokksins. Segir hann ljóst að um afar vond og erfið mál sé að ræða og hugur stjórnmálamanna rétt eins og samfélagsins alls sé hjá þolendum þeirra glæpa sem um ræðir. Aftur á móti hafi þegar verið hafist handa við að leysa málið og breyta reglum um uppreist æru. Í því samhengi hafi verið afar djörf ákvörðun hjá stjórn Bjartrar framtíðar að slíta stjórnarsamstarfinu. 

Björt Ólafsdóttir, fráfarandi umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, segir af og frá að annarlegar hvatir hafi búið að baki stjórnarslitunum. Þannig hafi flokkurinn verið í valdastöðu í ríkisstjórn en kosið að gefa hana frá sér vegna þess að flokksmönnum hafi verið „nóg boðið“. Fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við þingmenn nokkurra flokka á þingi í dag. Viðmælendur voru almennt sammála um að staðan væri afar snúin og ekki væri ljóst hvað tæki við að kosningum loknum. Utan Birgittu Jónsdóttur, þingflokksformanns Pírata, voru þeir þó allir sammála um mikilvægi þess að kosið yrði á ný í ljósi nýliðinna atburða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×