Skoðun

Skattaafslættir

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Nýlega hafa borist áskoranir, m.a. frá Samtökum atvinnulífsins og frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins, til fjármálaráðherra um að veita almenningi skattaafslátt til að kaupa hlutabréf. Óumdeilt er að slík aðgerð nýtist nær eingöngu tekjuhæstu einstaklingunum í samfélaginu.

Miklu fleiri leiðir til sparnaðar

Það er undarleg forgangsröðun að nota skattkerfið til að hygla þeim sem hafa hæstu tekjurnar með því að veita þeim sérstakar hlutabréfabætur. Ljóst er að hvorki lífeyrisþegar né almennt launafólk mun notfæra sér þetta „kostaboð“ til að lækka skattstofn sinn, af þeirri einföldu ástæðu að fólk hefur nóg annað við fé sitt að gera en að kaupa hlutabréf.

Hlutabréfakaup einstaklinga er ein tegund af sparnaði. Ef tilgangurinn með þessari undarlegu tillögu er að auka sparnað í samfélaginu eru miklu fleiri leiðir til þess, t.d. að auka vaxtabætur. Ef það er svigrúm til að lækka skatta er það meir í anda jafnaðarmennsku að veita fólki skattaafslátt vegna t.d. greiðslna fyrir heilbrigðisþjónustu og lyfjakaup og vegna ferðakostnaðar af þeim sökum. Einnig mætti hækka vaxtabótagreiðslur eða veita þeim sem skulda íbúða- eða námslán skattaafslætti vegna afborgana.

Kolröng forgangsröðun

Hér að ofan eru nefndar þarfari hugmyndir um skattaafslætti sem nýtist fleirum en þeim tekjuhæstu. Það er kolröng forgangsröðun að berjast fyrir skattaafslætti fyrir hina tekjuhærri, þegar krabbameinssjúkum er neitað um frádrátt frá skatti vegna mikilla útgjalda vegna heilbrigðisþjónustu.

Fólk getur sótt um frádrátt frá skatti vegna mikilla heilbrigðisútgjalda hjá Ríkisskattstjóra, en þær reglur eru túlkaðar þröngt og sjaldan fallist á slík erindi. Það segir margt um hug þingmanna sem berjast fyrir hlutabréfabótum en ekki fyrir bótum vegna hárra heilbrigðisútgjalda!

Tillaga um skattaafslætti er í samræmi við málflutning hægri manna og þjónar tekjuhæstu einstaklingum í samfélaginu, um leið og hún gengur gegn jöfnuði og skilur eftir þá sem hafa meðal og lægri tekjur með sárt enni.

Höfundur er jafnaðarmaður.




Skoðun

Sjá meira


×