Körfubolti

Goran Dragic: Við vanmetum engan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goran Dragic,
Goran Dragic, Mynd/S2
Arnar Björnsson ræddi við Goran Dragic, leikmann Miami Heat og slóvenska landsliðsins, á æfingu slóvenska liðsins í dag en Slóvenar mæta Íslendingum á EM í körfubolta í Helsinki á morgun.

„Þetta verður erfiður leikur á móti Íslandi því það eru engir auðveldir andstæðingar á þessu móti . Íslenska liðið spilar á full og þeir fá frábæran stuðning frá fólkinu sínu. Þetta verður áhugaverður leikur,“ sagði Goran Dragic.

Goran Dragic hefur spilað mjög vel með slóvenska liðinu á EM í Helsinki en hann er með 26,3 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

En er Slóvenía ekki miklu sigurstranglegra liðið í leiknum á morgun.

„Við vanmetum engan. Við erum búnir að undirbúa okkur fyrir leikinn og þjálfararnir okkar eru að vinna frábæra vinnu við að komast að því af hverjum stendur mesta ógnin af. Við munum reyna að stoppa þá og vonandi verður það nóg til að landa sigri,“ sagði Dragic.

„Við höfum ekki spilað betur en við bjuggumst við. Við eigum enn fullt inni. Það eru nokkrir leikmenn í smá dvala hjá okkur og við búumst við meiri af mönnum eins og (Anthony) Randolph, (Klemen) Prepelic og Edo Muric. Það er því von á meiri frá okkur,“ sagði Dragic.

Anthony Randolph er með 8,3 stig í leik, Klemen Prepelic hefur skorað 10,3 stig í leik og  Edo Muric er með 4,7 stig í leik. Næststigahæstur á eftir Dragic er hinn átján ára gamli Luka Doncic með 13,7 stig í leik.

En hversu langt getur Slóvenía náð á þessu móti?

„Við verðum bara að sjá hversu langt við getum komist á þessu móti. Fyrsta markmiðið okkar var að komast til Istanbul sem er nú í höfn, Nú reynum við að vinna alla leikina í riðlinum og svo eru bara úrslitaleikir sem bíða okkar í Istanbul. Vonandi verður við klárir í að gera það sem þarf til að vinna þar,“ sagði Dragic.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×