Skoðun

"Lagom“ með smá af "hygge“ og stóru "húh-i“

Guðrún Högnadóttir skrifar
Alveg hreint svakalega er oft erfitt að koma sér aftur í vinnugírinn eftir gott sumar.  Stefnan virðist skökk, markmiðin óyfirstíganleg, stemninginn enn föst í minningum um grískar eyjar eða langa hjólatúra – og gömlu óleystu verkefnin bíða í bunkum (sem var reyndar mjög vel raðað hornrétt á skrifborðið korter í frí).

Haustið er tími breytinga – náttúran flaggar nýrri litapallettu, fólk fer á flakk í nýjar stöður og verkefni, nýr taktur kemst í sölur og samruna, við vöknum upp við gjörbreytt landslag í mörgum atvinnugreinum, bleikur og gulur IKEA bæklingurinn dettur inn um lúguna, og það er ekki lengur í tísku að „hygge sig“ að hætti Dana – heldur eigum við nú að spegla okkur í lífsspeki Svía og finna hinn gullna „lagom“ meðalveg í öllu – ekki of mikið / ekki of lítið – bara akkúrat passlegt.

Hvernig laumum við „lagom“ jafnvægi í metnaðarfullar kröfur samtímans?  Hvernig myndir þú koma þér í startholurnar ef verkefnið þitt væri ekki eingöngu að ná fjárhagsáætlun þinnar deildar í lógarítmískum launahækkunum, heldur að útrýma fátækt og berjast gegn ójöfnuði í heiminum?  Eða í stað þess að koma nýrri vöru á markað í „rauðu hafi“ samkeppninnar væri verkefni þitt að tryggja heilbrigt líferni, þekkingu og þátttöku kvenna og barna um heim allan. 

Hvað ef verkefni þitt í haust væri ekki að blása lífi í slappa samfélagsmiðlamarkaðssókn ykkar heldur væri ábyrgð þín að hvetja til hnattrænnar samstöðu um sjálfbæra þróun.  Þetta er hluti af verkefnabunka Ban Ki-moon aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til 2030 – versogú.  Og þér fannst þinn verkefnalisti voldugur.  Reyndar eru Þúsaldarmarkmiðin verkefni okkar allra.  Og Ban blessaður komin á eftirlaun.

Þegar áskorunin er sem mest verðum við að hugsa öðruvísi.  Við getum ekki hamast hraðar eða lengur með verkfærum eða aðferðum sem leysa ekki vandann.  Ef þú átt bara hamar líta öll vandamál út eins og nagli sagði Maslow.  Við getum ekki lengur talað okkur í kaf á þingi eða ferlað eða „lean-að“ út í hið óendanlega eða skellt nefndum á allt sem hreyfist.  Veruleikinn kallar á glænýja hugsun. 

Hvernig væri að taka „Skandínavann“ á þetta og finna sköpunargleði í sátt og stóískri ró – búa til lausnir á göngu undir berum himni en ekki í loftlausum sterílum fundarherbergjum?  Hvernig væri að fá hugljómun um lausn krefjandi vandamáls í leikhúsinu eða við lestur góðrar bókar, en ekki á andlausri skrifstofunni eða í orkusogandi samfélagsmiðlum? 

Hættum að leita að nýjum svörum í „minnis-loopu“ eigin hugsanna eða í sama afmarkaða hópi alltof líkra einstaklinga og fáum hugmyndir í samtölum í raunheimum við einhvern sem er algjör andstaða okkar í aldri, reynslu og hugsun.  Höfum kjarkinn til að virkilega hugsa um hag heildarinnar, sleppum því að þurfa stöðugt að trompa nágrannann – og verum stolt af því að vinna vel en ekki of mikið! Húh!

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×