Handbolti

Bestu lið landsins berjast um fyrsta bikarinn í beinni á Stöð 2 Sport

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hanna G. Stefánsdóttir hætti við að hætta og mætir til leiks með Stjörnunni.
Hanna G. Stefánsdóttir hætti við að hætta og mætir til leiks með Stjörnunni. vísir/andri marinó
Íslandsmeistarar Fram í Olís-deild kvenna mæta bikarmeisturum Stjörnunnar í kvöld í Meistarakeppni HSÍ en leikurinn fer fram í Framhúsinu í Safamýri og hefst klukkan 19.30.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD en útsending frá leiknum hefst klukkan 19.20.

Fram og Stjarnan skiptu á milli sín titlunum á síðustu leiktíð en þau báru af í deildinni í fyrra og mæta mjög sterk til leiks í ár.

Fram varð deildarbikarmeistari og lagði Stjörnuna, 3-1, í lokaúrslitum Íslandsmótsins en Stjarnan vann Fram í bikarúrslitunum og varð deildarmeistari á síðustu leiktíð með betri árangri í innbyrðis viðureignum gegn Safmýrarstúlkum.

Stjörnuliðið missti Helenu Rut Örvarsdóttur eftir síðustu leiktíð og markvörðinn Hafdísi Renötudóttur en í staðinn fengu Garðbæingar ofurskyttuna Ramune Pekarskyte frá Haukum og Dröfn Haraldsdóttur í markið frá Val. Þá er einnig mætt landsliðskonan Þórey Anna Ásgeirsdóttir frá Gróttu.

Framliðið var öflugt á félagaskiptamarkaðnum í sumar og bætti við sig tveimur bestu handboltakonum Íslands í dag; leikstjórnandanum Karen Knútsdóttur og hægri hornamanninum Þórey Rósu Stefánsdóttur. Það verður spennandi að sjá þessar landsliðskonur í vetur en allt byrjar þetta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×