Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Grindavík 1-0 | Mikilvægur sigur Íslandsmeistaranna

Árni Jóhannsson skrifar
Steven Lennon skoraði sigurmark FH.
Steven Lennon skoraði sigurmark FH. vísir/eyþór

FH marði sigur á Grindvíkingum fyrr í dag í 18. umferð Pepsi deildar karla í fótbolta þar sem Steven Lennon skoraði eina mark leiksins um miðjan fyrri hálfleik. Leikurinn einkenndist af baráttu tveggja liða sem reyndu að spila góða bolta en það eina sem vantaði voru fleiri mörk þó færin hafi orðið nógu mörg.

FH byrjaði leikinn af meiri krafti og hafði boltann bróðurpart fyrri hálfleiks en Grindvíkingar voru fyrri til að ógna en leikaðferð þeirra sem gekk út á skyndisóknir og skipulagðan varnarleik gekk mjög vel upp. Bestu færi fyrri hálfleiks voru gestanna en það voru hinsvegar FH-ingar sem nýttu eitt sinna færa.

Á 19. mínútu leiksins varð pínu darraðadans í teig gestanna eftir fyrirgjöf og endaði það þannig að boltinn datt fyrir fætur Steven Lennon sem þakkaði pent fyrir sig og hamraði boltann í netið þannig að enginn kom neinum vörnum við.

Eftir markið var saga leiksins þannig að liðin skiptust á að eiga góða spilkafla þar sem Grindvíkingar áttu fleiri hættulegri færi en þeim voru mislagðar fæturnar fyrir framan markið og supu seyðið af því.

FH náði að sigla sigrinum heim og vippa sér upp í þriðja sætið eftirsóknarverða með leik inni á liðin í kringum sig. Gangi sá leikur vel þá geta þeir jafnað Stjörnumenn að stigum í öðru sæti. Þessi Evrópubarátta er langt í frá að vera búin.

Af hverju vann FH?
FH nýtti eitt af sínum færum er stutta svarið. Grindvíkingar geta nagað sig til blóðs í handabökin að hafa ekki náð að pota inn einu marki í dag því þeir fengu næg færi til þess. FH er hinsvegar með þannig lið og þannig gæði í liðinu að ekki þarf mörg færi til að skora markið sem öllu máli skiptir. 

FH-ingar voru einnig með góðar gætur á Andra Rúnari Bjarnasyni í dag sem fékk úr litlu að moða sjálfur en var duglegur að skapa usla þannig að liðsfélagar hans fengu færi en þeim gekk ekki eins vel og Andra hefur gengið það sem af er sumri.

Þessir stóðu upp úr:
Það er erfitt að taka einn mann út fyrir sviga í dag þar sem bæði lið voru mjög svipuð í spilamennsku sinni, báðar varnir voru skipulagðar og markverðirnir stóðu sig vel í sínum aðgerðum á meðan spilamennskan var fín út á vellinum.

Steven Lennon skoraði mark sem telur alltaf þegar verið er að tala um menn leiksins en í liði Grindvíkinga var líklegast William Daniels sem var bestur í jöfnu liði. Hann átti fína spretti og komst í fín færi en miðið var ekki rétt stillt í dag þannig að engin urður mörkin.

Hvað gekk illa?
Eins og áður hefur komið fram var það nýting færa sem gekk illa í dag. Bæði lið náðu ágætis spil köflum og Grindvíkingar áttu góðar skyndisóknir sem skapaði þeim mjög góð færi. Allt kom fyrir ekki þó þar sem Gunnar Nielsen varði það sem kom á markið en flest færin fóru yfir eða rétt framhjá stöngum markanna. Þeir geta þó tekið það úr leiknum að hafa skapað færin en þeir fá því miður ekki neitt fyrir það.

Hvað gerist næst?
FH-ingar gera nú atlögu að öðru sætinu hlýtur að vera þar sem þeir eru þremur stigum frá Stjörnunni og með leik inni. Sú atlaga hefst með leik þeirra við Víking Reykjavík í Fossvoginum í næstu umferð.

Grindvíkingar þurfa að halda áfram að þjarma að liðunum fyrir ofan sig og vona að úrslit verði þeim í hag en þeirra næsti leikur er gegn ÍBV út í Eyjum sem eru alltaf erfiðir leikir.

Óli Stefán: Svekktur en ánægður með frammistöðuna
Þjálfari Grindavíkur var sammála blaðamanni að það hafi verið vannýtt færi sem kostuðu gestina stig eða jafnvel stigin sem voru í boði í dag.

„Eftir svona leik verður maður fyrst og síðast að vera ósáttur við að klára ekki stöðurnar sem við komumst í og horfa einhvernveginn á Íslandsmeistarana á þeirra eigin heimavelli vera byrjaða að tefja eftir 60 mínútur. Markið lá svo í loftinu fyrir okkur og það sýnir okkur kannski á hvaða stað við erum komnir sem lið. Það er alltaf það sem við erum að horfa á en verð að segja það, þótt ég sé ógeðslega svekktur með tapið, þá er ég ánægður með strákana. Út af því að við erum í dag að binda saman fimmta leikinn í röð, þó við vinnum ekki, með góða frammistöðu og það verð ég að taka og vinna úr, sem er gott“.

Grindvíkingar voru í góðum séns í dag að komast upp í þriðja sætið sem gefur Evrópusætið en nú verður að segjast að FH-ingar séu við stýrið í baráttunni um það sæti. Óli var beðin um leggja mat á framhaldið.

„FH-ingar eru náttúrlega í frábærum málum, eiga einn leik inni og eru með töluvert betri markatölu en við en við verðum bara að hugsa þetta sem einn leik í einu. Við verðum að einbeita okkur að núinu og ég reyni að ýta allri stærðfræði og öðrum úrslitum frá mér og einbeita mér að því góða í okkar leik. Það var mikið af góðum hlutum hjá okkur í dag og við verðum að taka það með okkur til Vestmannaeyja á fimmtudaginn næsta“.

Heimir: Verð að segja þetta líka, við hugsum bara um einn leik í einu
„Ég er sammála því að þetta var ekki áferðafallegasti sigurinn hjá okkur í sumar. Við vorum sterkir í fyrri hálfleik og náum góðu marki og sköpuðum okkur góð færi. Þeir voru mjög hættulegir í skyndisóknunum og Grindavík er með frábært fótboltalið, vel spilandi og mjög hættulegir. Við erum því mjög ánægðir með sigurinn í dag“ sagði þjálfari FH þegar hann var spurður út í leikinn í dag.

Heimir var spurður út í það hvort einhverjar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar út af Andra Rúnari Bjarnasyni markahæsta leikmanni Íslandsmótsins.

„Já við náttúrlega skoðuðum hvað hann hefur verið að gera í sumar. Mér fannst Beggi og Kassim ráða ágætlega við hann í dag“.

Heimir var svo að lokum beðinn um að leggja mat á framhaldið þar sem FH-ingar eru komnir í bullandi tækifæri á að ná Stjörnunni að stigum.

„Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um einn leik í einu. Ég verð að segja þetta líka, það eru allir aðrir þjálfarar búnir að segja þetta í vikunni. Við hugsum bara um einn leik í einu“.

Maður leiksins: Steven Lennon, 7. 
Hægt er að skoða einkunnir leikmanna undir flipanum Liðin að ofan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.