Skoðun

Hvar stöndum við nú?

Kristín Ástgeirsdóttir skrifar
Haustið 2007 tók undirrituð við starfi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu á Akureyri. Ný ríkisstjórn var tekin við völdum og það stóð mikið til í jafnréttismálum. Mikil vinna hófst við að útrýma launamisrétti kynjanna, unnið var að undirbúningi að innleiðingu tveggja tilskipana Evrópusambandsins um bann við mismunun á grundvelli annars en kyns og lagt var fram frumvarp til nýrra jafnréttislaga, svo eitthvað sé nefnt. Ný jafnréttislög nr. 10/2008 voru samþykkt vorið 2008 og fólu þau í sér margvíslegar nýjungar, t.d. kvóta í öllum opinberum stjórnum, ráðum og nefndum. En skjótt skipast veður í lofti. Haustið 2008 varð efnahagshrun og við tóku ár mikils niðurskurðar og átaka.

Hrunárin skiluðu ýmsum breytingum. Konum fjölgaði verulega á Alþingi og urðu í fyrsta sinn forsætis- og fjármálaráðherrar. Tala kvenna og karla var jöfn í ríkisstjórninni um sinn. Samþykkt var bann við kaupum á vændi og einka- og nektardans voru bannaðir til að reyna að stöðva vændi og mansal. Alþingi samþykkti lög um kynjakvóta í stjórnum stærri fyrirtækja og lífeyrisjóða. Þá var samþykkt að ein hjúskaparlög skyldu gilda fyrir alla. Hin svokallaða austuríska leið var innleidd en hún felur í sér að heimilt er að fjarlægja ofbeldismann af heimili.

Árið 2014 var Ísland með formennskuna í Norrænu ráðherranefndinni og þá var haldin mjög eftirminnileg ráðstefna á Akureyri um stöðu kynjanna á norðurslóðum. Árið 2015 var haldið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna með pomp og prakt og 15 ára afmæli Jafnréttisstofu. Ári síðar var kvennafrídagurinn haldinn með kröftugum útifundum rétt fyrir alþingiskosningar og veitti ekki af að minna frambjóðendur á ýmis baráttumál, t.d. launamisréttið. Þannig mætti áfram telja en síðast bar til stórtíðinda að Alþingi samþykkti lög um jafnlaunavottun sem fróðlegt verður að fylgjast með á næstu árum.

Hvað er þá eftir? Hvar stöndum við nú árið 2017? Það er af nógu að taka.

Það þarf að fylgja jafnlaunavottuninni vel eftir og tryggja að þau skili árangri. Það verður að bæta fæðingarorlofið, bæði að hækka þakið og lengja orlofið í 12 mánuði. Við þurfum að fara í herferð til að hvetja feður til að taka fullt fæðingarorlof. Það verður að innleiða Istanbúlsamninginn um aðgerðir til að kveða niður ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þessi samningur Evrópuráðsins getur orðið mjög mikilvægt tæki í þeirri baráttu. Það þarf að auka öryggi fólks, ekki síst kvenna, í opinberu rými. Klám, vændi og hatursorðræða lifa allt of góðu lífi og þarf að kveða í kútinn.

Það þarf að tryggja réttindi minnihlutahópa með banni við hvers kyns mismunun. Við þurfum að herða sóknina gegn heftandi staðalmyndum kynjanna, auka fræðslu um kynjajafnrétti og gera kynjafræði að skyldunámi fyrir kennara. Auka þarf hlut kvenna í forystu og við stjórnun fyrirtækja sem og í forystu samtaka atvinnulífsins. Endurmeta þarf störf hefðbundinna kvennastétta sem eru einhver þau mikilvægustu í hverju samfélagi, ekki síst kennsla og umönnun barna. Misrétti í lífeyrismálum er svo kapítuli út af fyrir sig sem þarf að taka til rækilegrar skoðunar. Þar hallar verulega á konur.

Síðast en ekki síst þarf að breyta hugarfarinu og (ó)menningunni, velta ævagömlu feðraveldinu úr sessi og breyta samfélagsháttum. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á fræðikonur frá Mexíkó sem voru að vinna að hugmyndum um að snúa hagkerfinu alveg við. Setja umönnun, velferð og hag fólksins efst í píramídann, en atvinnulífið og stjórnkerfið neðst. Atvinnulífið og stjórnvöld eiga samkvæmt þessu að þjóna fólkinu, almannahagsmunum en ekki öfugt. Sannarlega spennandi hugmyndir.

Það er verk að vinna og við eigum að vera fyrirmyndir. Við eigum að styðja og styrkja mannréttindabaráttu, ekki síst baráttu kvenna og minnihlutahópa, um allan heim. Við eigum líka að vera friðflytjendur og beita okkur í þágu friðar. Án friðar, ekkert jafnrétti, án friðar ekkert réttlæti. Ég vitna í Nóbelsverðlaunahafann Berthu von Süttner og segi: „Niður með vopnin“. Höldum vöku okkar og vinnum áfram að jafnrétti og jöfnuðu fyrir alla.

 

Höfundur er fráfarandi jafnréttisstýra.




Skoðun

Sjá meira


×