Innlent

Nítján gráður í dag og enn hærri hiti á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íbúar Seyðisfjarðar verða eflaust léttklæddir um helgina.
Íbúar Seyðisfjarðar verða eflaust léttklæddir um helgina. Vísir/Vilhelm

Hitinn verður með bærilegasta móti í dag og býst Veðurstofan ekki við öðru en að hann verði hærri á morgun. Gert er ráð fyrir allt að 19 stiga hita í dag og allt að 22 gráðum á morgun, þá sérstaklega á Austurlandi þar sem gert er ráð fyrir að verði hlýjast um helgina.

Það mun blása nokkuð á landsmenn í dag, sérstaklega þá við suðausturströndina og á norðvesturhorninu. Það verður bjart austan- og norðaustanlands en annars skýjað og súld á köflum á vestanverðu landinu. Þó mun draga eitthvað úr vindi annað kvöld. Hitinn verður á bilinu 10 til 19 stig en á morgun gæti hann farið í 22 gráður sem fyrr segir.

Nánar á veðurvef Vísis.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan og sunnan 8-13 m/s. Smásúld á Suður- og Vesturlandi með hita 11 til 14 stig en léttskýjað á Norður- og Austurlandi með allt að 22 stiga hita.

Á laugardag:
Sunnan 8-15, hvassast austast. Rigning víða um land en úrkomulítið norðanlands. Úrkomuminna vestantil um kvöldið. Hiti 11 til 19 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag:
Suðvestan 5-13 og rigning suðaustantil framan af degi, en annars súld á köflum, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast fyrir austan.

Á mánudag:
Suðvestlæg átt og rigning, en yfirleitt þurrt austalands. Áfram fremur hlýtt.

Á þriðjudag:
Vestan og norðvestanátt og víða rigning með köflum, síst SA-til. Kólnandi veður.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir fremur svala vestlæga átt, en úrkomulítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira