Fótbolti

Ramos: Ekki allir ánægðir með hvað okkur gengur vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Ramos var rekinn af velli í uppbótartíma.
Sergio Ramos var rekinn af velli í uppbótartíma. vísir/getty
Eftir 3-0 sigur Real Madrid á Deportivo La Coruna í gær ýjaði Sergio Ramos, fyrirliði Madrídarliðsins, að því að öfund í garð liðsins hafi verið ástæðan fyrir því að hann hafi verið rekinn af velli undir lok leiks.

Ramos fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma í gær. Þetta var hans átjánda rauða spjald í spænsku úrvalsdeildinni.

Ramos segir að fólk öfundi Real Madrid af árangrinum sem liðið hefur náð á undanförnum árum.

„Það eru ekki allir sem eru ánægðir með hvað okkur gengur vel en við sofum rólegir á nóttunni,“ sagði Ramos.

„Ég held að ákvarðanir séu ekki teknar fyrirfram en stundum þarftu að fylgjast betur með. Kannski leyfa dómarar í Meistaradeild Evrópu og landsleikjum meira. Við ættum að horfa meira til Englands þar sem meira er leyft. Þeir skoða líka meira eftir á og refsa núna fyrir leikaraskap. Þeir gera það betur en við,“ bætti Ramos við.

Fyrirliðinn hefur alls fengið 23 rauð spjöld síðan hann gekk í raðir Real Madrid árið 2005. Hann hefur hins vegar aldrei verið rekinn af velli í 143 landsleikjum fyrir Spán.


Tengdar fréttir

Evrópumeistararnir ekki í vandræðum með Deportivo

Real Madrid virðist ekki eiga í neinum vandræðum með að vinna leiki án stórstjörnunnar Cristiano Ronaldo. Evrópumeistararnir mættu til leiks í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið fór í heimsókn til Deportivo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×