Innlent

Barn flutt til skoðunar á sjúkrahús eftir að hoppukastali fór á hliðina í Hveragerði

Atli Ísleifsson skrifar
Hoppukastalinn var settur upp í tilefni af bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hoppukastalinn á myndinni er ekki kastalinn sem um ræðir.
Hoppukastalinn var settur upp í tilefni af bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hoppukastalinn á myndinni er ekki kastalinn sem um ræðir.
Barn var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir að um fimm metra hár hoppukastali fór á hliðina í Hveragerði um helgina.

Að sögn lögreglu á Suðurlandi voru þrjú börn í kastalanum þegar hann fór á hliðina. Sjúkrabíll var sendur á vettvang og var í kjölfarið ákveðið að flytja eitt þeirra til skoðunar á Selfoss. Barnið slasaðist ekki alvarlega eftir því sem Vísir kemst næst.

Jóhann Tómasson, framkvæmdastjóri Sprell, sem á umræddan hoppukastala, segir að í þessu tilviki hafi blásari losnað eftir að einhver gekk á hann. Við það hafi loft farið úr kastalanum sem varð til þess að hann fór á hliðina þegar krakkar voru þar að leik.

„Yfirleitt bindum við kastalana en veðrið var svo dásamlegt að við gerðum það ekki í þessu tilviki. Hann fór á hliðina og það hrufluðust þarna einhverjir tveir krakkar. Ef eitthvað svona gerist þá köllum við á sjúkrabíl – segjum að kastali hafi farið á hliðina, að krakkar hafi hruflast og biðjum þá um að kíkja á þetta. Svo er bara venja að lögregla taki skýrslu upp á tryggingamál.“

Jóhann segir að eftir að kastalinn hafi farið á hliðina hafi hann verið settur upp aftur og festur aðeins betur. „Yfirleitt eru kastalarnir festir en þarna var veðrið svo dásamlegt og okkur yfirsást þessi möguleiki.“

Jóhann segir að Vinnueftirlitið komi reglulega og fylgist með uppsetningu fyrirtækisins á tækjum. Hann segir þó að hoppukastalar séu undanþegnir slíku þar sem ekki sé um vélbúnað að ræða.

Hoppukastalinn var settur upp í tilefni af bæjarhátíðinni Blómstrandi dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×