Skoðun

Skólar fyrir öll börn og ungmenni

Stjórn Grunns – félags fræðslustjóra og stjórnenda á skólaskrifstofum. skrifar
Nýverið voru kynntar niðurstöður úttektar Evrópumiðstöðvar (European Agency for Special Needs and Inclusive Education) á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Viðstaddir kynninguna voru ráðherrar menntamála, velferðarmála og heilbrigðismála ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heimilis og skóla, Kennarasambands Íslands og Skólameistarafélags Íslands. Sýna niðurstöður úttektarinnar að lög og stefnumótun hér á landi styðja vel við hugmyndafræði um menntun fyrir alla og skóla án aðgreiningar. Lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og aðalnámskrár allra skólastiga leggja áherslu á rétt barna til að afla sér góðrar menntunar í heimabyggð við hlið vina sinna og jafnaldra.

Af hverju eru skólar á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni?

Niðurstöður úttektarinnar sýna að sameiginlegur skilningur á því að öll börn sæki almenna skóla á Íslandi er ekki fyrir hendi. Víða ríkir sá skilningur að til séu „eðlileg“ börn og svo „börn með sérþarfir“. Vænlegra þykir að líta á börn og ungmenni sem fjölbreyttan hóp með fjölbreyttar þarfir og að hlutverk kennara sé fyrst og fremst að koma til móts við nám hvers nemanda og að sjá til þess að hann taki framförum. Einnig þarf að ganga út frá því að börn og ungmenni hafi rétt á því að sækja almenna skóla í samfélagi þar sem jöfnuður og umburðarlyndi ríkir. Er það í samræmi við lög og stefnumótun á Íslandi og þann grunn sem íslenskt samfélag byggir á. Í skóla fyrir alla læra börn og ungmenni grunnþætti menntunar, læsi, sköpun, heilbrigði, sjálfbærni, lýðræði og jafnrétti. Með því að sækja þann skóla sem næstur er taka þau þátt í að móta nærsamfélag sitt og læra að tilheyra því.

Hvernig geta allir skólar verið fyrir öll börn og ungmenni?

Í úttekt Evrópumiðstöðvar á skólum á Íslandi kemur fram að eitt helsta verkefni sem hagsmunaaðilar íslensks skólakerfis standa frammi fyrir á næstu árum er að öðlast sameiginlegan skilning á því hvernig standa skuli að því að öll börn fái menntun við hæfi í öllum skólum á Íslandi. Þar höfum við góðan grunn að byggja á í lögum og námskrám. Hagsmunaaðilar þurfa að sameinast um hvernig grunnnám, símenntun og stuðning kennarar þurfa til að sinna fjölbreyttum þörfum barna og ungmenna með fjölbreyttum kennsluháttum með það fyrir augum að hvert barn taki framförum. Nám er í eðli sínu félagslegt, börn læra í samneyti við önnur börn og fullorðna. Talið er að teymisvinna þar sem kennarar vinna saman með hóp barna sé vænlegri til árangurs en að einn kennari kenni hópi barna. Á Íslandi er krafist M.Ed.-gráðu við úthlutun leyfisbréfa til kennara og þarf grunnnám kennara að taka í ríkari mæli mið af því að þeirra bíði að kenna fjölbreyttum nemendahópi. Rætt hefur verið um að koma á einhvers konar kandídatsnámi kennaranema þar sem þeir öðlast leikni í að beita þeirri þekkingu sem þeir öðlast í kennaranáminu.

Niðurstöður Evrópumiðstöðvarinnar sýna að í skólakerfinu er nægilegt fjármagn fyrir hendi til að sinna fjölbreyttum þörfum nemenda, meira fjármagn en tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Vandi íslenska kerfisins er að fjármunir eru oft bundir við greiningar á sérþörfum barna sem hefur leitt til þess að greiningar hér eru töluvert fleiri en í samanburðarlöndum. Þessu þarf að breyta og má hugsa sér að fjármunum sé einkum úthlutað til skóla eftir fjölda nemenda, samsetningu barnahópsins og félagslegri stöðu viðkomandi sveitarfélags í stað þess að úthluta fé vegna tiltekinna einstaklinga. Niðurstöður úttektarinnar sýna einnig að við þurfum að vera vakandi fyrir dreifðari byggðum landsins, en í fjölda sveitarfélaga eru fámennir skólar. Því þarf einnig að úthluta fjármagni með það fyrir augum að jöfnuður ríki í menntun barna um allt land, hvort sem þau læra í fámennum skólum eða fjölmennum.

Hvað þarf að gera á Íslandi?

Fyrir liggur að þeir sem að skólastarfi koma þurfa á næstu mánuðum að öðlast sameiginlegan skilning á því hvernig best verði staðið að menntun fyrir öll börn í öllum skólum. Fyrirhugað er að halda ráðstefnur og málstofur víða um land til að fylgja eftir úttekt Evrópumiðstöðvar. Augljósasta verkefnið er að grunn- og símenntun kennara taki mið af fjölbreyttum nemendahópum og margvíslegum kennsluaðferðum til að mæta þeim. Allt stuðningskerfi skóla þarf að standa við bakið á kennurum, efla samstarf þeirra og lærdómssamfélag í skólum og milli skóla, þar sem rætt er um fjölbreyttar þarfir barna og hvernig þeim skuli mætt frá degi til dags. Endurskoða þarf úthlutun fjármagns svo að þeim mikla tíma sem varið hefur verið í greiningar sé varið í að skipuleggja og þróa nám og kennslu þar sem árangur og vellíðan barna er leiðarljósið.

Aðkoma ráðherra menntamála, heilbrigðismála, velferðarmála, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Heimilis og skóla, Kennarasambands Íslands og Skólameistarafélags Íslands að málinu sýnir að íslensk stjórnvöld taka málefnið alvarlega og hyggjast fylgja því eftir af fullum þunga. Stofnaður hefur verið stýrihópur með tengiliðum fyrrgreindra aðila sem munu móta aðgerðaráætlun og vinna að málinu næstu árin. Fögnum fjölbreytileikanum og látum drauminn um að allir skólar á Íslandi séu fyrir öll börn og ungmenni verða að veruleika.



Stjórn Grunns – félags

fræðslustjóra og stjórnenda

á skólaskrifstofum.

Anna Magnea Hreinsdóttir

sviðsstjóri fjölskyldusviðs Borgarbyggðar

María Kristjánsdóttir

forstöðumaður skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

Sigurlína Jónasdóttir

leikskóla- og daggæslufulltrúi Grindavíkurbæjar

Valgerður Janusdóttir

sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Akraneskaupstaðar

Þorsteinn Hjartarson

fræðslustjóri í Sveitarfélaginu Árborg




Skoðun

Sjá meira


×