Formúla 1

Hamilton: Það er mikill heiður að jafna met Schumacher

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sebastian Vettel, Lewis Hamilton og Valtteri Bottas, þrír hröðustu menn dagsins.
Sebastian Vettel, Lewis Hamilton og Valtteri Bottas, þrír hröðustu menn dagsins. Vísir/Getty
Lewis Hamilton náði sínum 68. ráspól á ferlinum í dag og jafnaði þar með met Michael Schumacher. Hver sagði hvað eftir tímatökuna?

„Það er mér mikill heiður að jafna met Schumacher. Ég átti frábært frí og ég er ferskur eftir það. Seinni helmingur tímabilsins verður erfiður fyrir alla, ökumenn, lið og allt starfsfólk. Vonandi getum við gert allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði Hamilton eftir tímatökuna.

Hann bætti svo við að hann væri í besta starfi í heimi.

„Ég þurfti á því að halda að ná á fremstu rásröð. Það er ljóst að við vorum ekki langt undan og Mercedes má vera skelkað yfir keppnishraðanum sem við sýndum á æfingum. Ég verð þó að viðurkenna að ég fékk að nýta mér kjölsogið hjá Kimi þegar ljóst væri að hann myndi ekki bæta sinn tíma,“ sagði Sebastian Vettel sem varð annar í tímatökunni.

„Ég var búinn að setja markið á ráspól en Lewis átti gallalausan dag. Á meðan hef ég verið að glíma við vandamál. Það er eitthvað sem ég þarf að komast til botns í og ég er þegar farinn að hugsa um morgundaginn,“ sagði Valtteri Bottas sem varð þriðji.

„Þetta var frábær hringur hjá Lewis og það var frábært að sjá hringinn. Það er ekki nema 0,2 á milli okkar og Ferrari svo við erum að þróast á mjög svipuðum hraða,“ sagði Niki Lauda, sérstakur ráðgjafi Mercedes liðsins og heimsmeistari í Formúlu 1.

„Titringurinn hjálpaði ekki. Það er svekkjandi að vera búinn að eiga mjög góðar æfingar og lenda svo í basli í tímatökunni. Ég er ekkert sérstaklega kátúr núna. Það er frábært að við verðum báðir áfram á næsta ári hjá liðinu, það er þó ekki efst í huga mér núna,“ sagði Kimi Raikkonen sem varð fjórði í dag á Ferrari.

„Ég naut dagsins, ég var alveg við takmörk bílsins í dag. Það gekk allt upp í dag. Það verður erfitt að komast fram úr Ferrari og Mercedes, ef það verður þurrt á morgun,“ sagði Max Verstappen sem varð fimmti í dag á Red Bull.

„Við áttum ekki möguleika að reyna raunverulega að ögra Ferrari og Mercedes. Ég er einna helst svekktur yfir því að tapa fyrir liðsfélaga mínum í dag. Uppstillingin okkar ætti að þýða að okkur gangi betur í keppninni á morgun,“ sagði Daniel Ricciardo sem varð sjötti í dag.

„Við erum nær toppnum en við héldum að við yrðum. Max átti frábæra tímatöku og við ætlum okkur að vera samkeppnishæfari í keppninni sjálfri,“ sagði Christian Horner keppnisstjóri Red Bull.


Tengdar fréttir

Sebastian Vettel framlengir við Ferrari til 2020

Sebastian Vettel mun aka fyrir Ferrari næstu þrjú árin. Tilkynning um samninginn var gefin út í Belgíu þar sem fyrsti kappasturinn eftir sumarfrí fer fram um helgina.

Lewis Hamilton á ráspól á Spa

Lewis Hamilton á Mercedes náði ráspól í tímatökunni fyrir belgíska kappaksturinn sem fram fer á Spa brautinni á morgun. Sebastian Vettel varð annar á Ferrari og Valtteri Bottas varð þriðji á Mercedes.

Raikkonen og Hamilton fljótastir á æfingum í Belgíu

Kimi Raikkonen á Ferrari var fljótastur á fyrri æfingu dagsins fyrir belgíska kappaksturinn í Formúlu 1 sem fram fer um helgina á Spa brautinni. Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur á seinni æfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×