Fótbolti

Buffon er ekki hrifinn af myndbandsdómurunum

Elías Orri Njarðarson skrifar
Buffon var hress í leiknum við Genoa
Buffon var hress í leiknum við Genoa visir/getty
Gianluigi Buffon, hinn síungi markvörður Juventus og ítalska landsliðsins í fótbolta, er ekki sáttur við hina nýju myndbandsdómara (e. Video Assistant Referees) sem eru komnir til þess að aðstoða aðaldómara í stórum ákvörðunum.

Buffon, sem er orðinn 39 ára gamall, hefur farið í gegnum margt í boltanum á ferli sínum en hann segir myndbandsdómarana sem hefur verið að vasla sér völl í stærstu deildum heims í fótboltanum sé að skemma skemmtanagildi fótboltans.

Á laugardag var Buffon í liði Juventus sem mættu Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og þar kom myndbanddómari við sögu. Bæði Juventus og Genoa fengu vítaspyrnur eftir að aðaldómari leiksins studdi dóm sinn við myndbandsupptöku og ráðleggingu frá myndbandsdómara en Juventus vann leikinn 4-2.

„Þetta er ekki lengur fótbolti - þetta er að breytast í sund póló.“ lét Buffon hafa eftir sér eftir að hafa verið spurður út í myndbandsdómarana eftir leikinn.

„Á síðasta tímabili fengum við dæmdar þrjár vítaspyrnur okkur í hag en ef þetta heldur áfram svona þá fáum við 50. Ég er ánægður með það sem leikmaður Juventus, en þetta skemmir skemmtanagildið í fótboltanum,“ sagði Buffon.

Töluverð bið getur myndast meðan að myndbandsdómari gefur út ákvörðun sína og því skiljanlega getur það dregið úr skemmtuninni.

Athyglisvert verður að sjá hvort að myndbandsdómarahlutverkið sé komið til þess að vera en töluverð óánægja hefur verið með þessa nýju tækni í knattspyrnuheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×